Gleði og fjör á sumarhátíðum í leikskólum Reykjavíkur

Sumarhátíð í leikskólanum Maríuborg

Í leikskólum víðs vegar um Reykjavík hefur sumrinu verið fagnað með fjölbreyttum og líflegum hátíðum þar sem börn, foreldrar og starfsfólk komu saman til að skapa ógleymanlegar minningar. Þrátt fyrir misjafnt veður var stemningin alltaf upp á tíu og hátíðirnar endurspegluðu gleði, samveru og sköpunarkraft barnanna.

Fjölbreytt dagskrá og misjafnt veður á sumarhátíðum

Í Maríuborg voru hoppukastalar, andlitsmálning og sápukúlur í boði og endaði hátíðin á sýningu Brúðubílsins með börnunum úr Geislabaugi.

Sumarhátíð í leikskólanum Maríuborg

Í Furuskógi fóru börnin í skrúðgöngu og hittu jafnaldra sína úr Efstalandi og Álandi. Hestar komu í heimsókn og öll börnin fengu að fara á hestbak, sem vakti mikla lukku.

Sumarhátíð í Furuskógi.

 

Í Hálsaskógi komu Maxímús og Dagný úr Hörpu og kenndu börnunum dans og kynntu hljóðfæri og öll fengu bókamerki í minningu dagsins. Í Bergi kom trúðurinn Wally og nokkrum dögum síðar Brúðubíllinn, bæði í boði foreldrafélagsins.

Sumarhátíð í leikskólanum Hálsaskógi.

Fífuborg hélt hátíð með brekkusöng og leikriti frá Leikhópnum Lottu um Hans og Grétu. Í garðinum voru fjölbreyttar stöðvar eins og pokahopp, sápukúlur og krítar. 

Sumarhátíð í Fífuborg

Í Ævintýraborg við Eggertsgötu kom Blöðrukallinn og blár himinn prýddi daginn. Þátttaka foreldra í kostnaði gerði leikskólanum kleift að bjóða upp á listafólk og skemmtikrafta.

Sumarhátíð í Ævintýraborg við Eggertsgötu.

Í Vinagerði var garðurinn skreyttur og börnin skörtuðu sumarkórónum. Leikhópurinn Lotta sýndi leikrit og foreldrafélagið bauð upp á leiktæki og grillaðar pylsur. Í Steinahlíð var haldinn hinn árlegi drullumallsdagur þar sem fjölskyldur komu saman til að leika í mold og vatni. Dagurinn endaði svo á pylsum og gleði.

Sumarhátíð í leikskólanum Steinahlíð

Í Kvistaborg var haldin íþróttahátíð þar sem börnin kepptu í þrautum og fengu íþróttanammi og pasta. Óhætt er að segja að mikil samstaða og gleði hafi ríkt meðal allra sem tóku þátt.

Sumarhátíð í leikskólanum Kvistaborg

Í Björtuhlíð var boðið upp á töframann, blöðrugerð og andlitsmálningu í samstarfi við foreldrafélagið.

Sumarhátíð í leikskólanum Björtuhlíð

Í leikskólanum Ösp skipulögðu elstu börnin hátíðina sjálf og óskuðu eftir pizzu og íspinna, sem þau fengu. Hoppukastalar fyrir mismunandi aldurshópa voru settir upp og pálínuboð í salnum skapaði notalega stemningu.

Veitingar í leikskólanum Ösp

Trúðurinn Wally heimsótti leikskólann Berg og nokkrum dögum síðar Brúðubíllinn, bæði í boði foreldrafélagsins. Í Maríuborg voru hoppukastalar, andlitsmálning og sápukúlur í boði – hátíðin endaði á sýningu Brúðubílsins eftir skrúðgöngu með öllum börnunum.

Sumarhátíð í leikskólanum Bergi

Í Hagaborg var sannkölluð sumarstemning þegar Lalli töframaður mætti á svæðið og sýndi börnunum töfrabrögð sem vöktu mikla kátínu. Börnin fylgdust spennt með og voru öll í höfuðfötum í litum sinna deilda, sem þau höfðu útbúið sjálf. Hátíðin hófst á skrúðgöngu þar sem skólahljómsveit Vesturbæjar leiddi hópinn í kringum leikskólann við frábært veður.

Sumarhátíð í Hagaborg.

Í garðinum var hægt að leika sér með krítar, sápukúlur og ýmislegt sandkassadót. Foreldrafélagið sá um að grilla pylsur fyrir alla – börn, foreldra, systkini og ömmur og afa – og í eftirrétt fengu börnin frostpinna. Stemningin var létt og skemmtileg og pylsuröðin löng, enda allir í góðu skapi.

Þessar hátíðir sýna vel hversu mikilvæg samvera og þátttaka barna er í leikskólastarfi. Með stuðningi foreldra og eldmóði starfsfólks verða hátíðirnar að dýrmætum augnablikum sem börnin munu muna lengi.