Gatnamót Grensásvegar og Ármúla endurgerð

Samgöngur

Teikning af hönnun gatnamóta Grensásvegar og Ármúla.
Teikning af gatnamótum Grensásvegar og Ármúla

Tillaga að úrbótum á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla var kynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag. Samþykkt var að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á fyrirkomulagi á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla/Skeifunnar. 

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega með framkvæmdunum sem gert er ráð fyrir að hefjist á þessu ári. 

Um er að ræða eldri gatnamót sem hönnuð voru við aðrar forsendur en eru nú til staðar í hverfinu. Vegna mikillar uppbyggingar íbúða við þessi gatnamót og rekstur á tímabundnu skólahúsnæði á svæðinu hefur umferð gangandi vegfarenda  um þessi gatnamót aukist. 

Gönguleiðir réttar af, gangbrautir og framhjáhlaup hækkað 

Í tillögunni er gert ráð fyrir bættri lýsingu á gatnamótunum, tveimur nýjum miðeyjum verður bætt við og nýjum gangbrautum komið fyrir. Einnig er stefnt að því að rétta af gönguleiðir eins og kostur er en þær eru skakkar í núverandi hönnun. Beinni gönguleið styttir vegalengd gangandi yfir götuna og bætir yfirsýn. Gönguleiðir yfir framhjáhlaup gatnamótanna verða hækkuð upp til að draga úr hraða ökutækja og bæta aðgengi gangandi, gangbrautir merktar á þeim og komið verður fyrir sérstökum áhersluflötum fyrir sjónskerta vegfarendur.  


Akreinum á Grensásvegi verður fækkað um eina í hvora átt í gatnamótunum en sú breyting gefur aukið rými fyrir miðeyjur og styttir gönguleið yfir akbrautirnar.  Um er að ræða sambærilegar aðstæður og hafa verið á svæðinu um nokkurt skeið vegna framkvæmda, og í anda þess sem stefnt er að á svæðinu í tengslum við endurnýjun svæðisins og uppbyggingu borgarlínu eftir Suðurlandsbraut.