Gætum að öryggi barna í sundi

Mynd tekin í sundi.

Aðsókn í sundlaugar eykst á sumrin og afþreyingin er vinsæl meðal barna og foreldra. Með þeirri ánægju að fara í sund fylgir mikil ábyrgð, sérstaklega þegar börn eru með í för. Til að öll geti notið sundferðarinnar á öruggan og ánægjulegan hátt er mikilvægt að öryggi sé ávallt haft í fyrirrúmi.

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi. Átakið er unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi (SFSÍ) og er því beint að öllu landinu.

Reglur hertar til að auka öryggi

Undanfarin ár hafa reglur um börn í sundi verið hertar með tilliti til öryggis. Reglurnar snúa meðal annars að hámarksaldri þeirra sem koma ein í sund en sá aldur er 10 ára (1. júní árið sem þau verða 10 ára). Syndur einstaklingur 15 ára og eldri má hafa með sér tvö börn undir 10 ára í sund en foreldrum er heimilt að fara með öll sín börn. Mikil ábyrgð hvílir á þeim sem koma með hópa í sund. Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið sig saman og hert reglur umfram reglugerð og því mega 8 börn vera á hvern leiðbeinanda í stað 15 eins og kemur fram í reglugerð um hópferðir í sund.

Mynd af barni í sundi með texta um öryggi barna.

Barn getur drukknað á 30 sekúndum

Börn á aldrinum 1-4 ára eru líklegust til að lenda í vandræðum í sundi eða drukkna og þar á eftir börn 5-9 ára. Barn getur drukknað á 30 sekúndum. Sjónum þessa átaks er því helst beint að foreldrum og öðrum forráðamönnum barna á þessum aldri og lögð áhersla á að líta aldrei af barni í vatni. Fullorðnir einstaklingar sem koma með börn í sund bera ábyrgð á öryggi þeirra. Tryggja þarf að ósynd börn séu með viðeigandi öryggisbúnað eins og armkúta sem hægt er að fá að láni í öllum sundlaugum. Það að barn sé með kúta eða annan öryggisbúnað er ekki trygging fyrir því að ekkert gerist.

Góð ráð til foreldra/forráðamanna sem fara með börn í sund eða við vatn má finna á heimasíðu Rauða krossins og hvetjum við alla til að kynna sér þau vel.

Öryggi í sundi er á ábyrgð okkar allra. Ertu ekki örugglega að fylgjast með?

5 ráð um öryggi barna í sundi

  1. Hafðu augun ekki af barninu allan tímann.
  2. Gefðu barninu að borða og drekka áður en farið er í sund.
  3. Viðhaldu sundfærni barnsins yfir sumartímann.
  4. Settu öryggisreglur í kringum vatn og fræddu barnið um öryggi í vatni.
  5. Lærðu endurlífgun og skyndihjálp.

    Áminningarorð til foreldra barna í sundi.