Fyrstu mánuðir neyslurýmisins Ylju sýni fram á mikla þörf

Í maí síðastliðnum samþykkti borgarráð að framlengja samning milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu um rekstur neyslurýmisins Ylju. Samhliða því var samþykkt að framlengja samning á milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands um fjármögnun á rekstri neyslurýmisins.
Neyslurýmið Ylja var opnað í Borgartúni 5 í ágúst 2024, eftir nokkuð langa leit að hentugu húsnæði. Áður hafði það tímabundið verið rekið sem tilraunaverkefni í sérútbúnum bíl og segir Sigríður Ella Jónsdóttir, teymisstjóri skaðaminnkandi verkefna hjá Rauða krossinum, þann tíma hafa sýnt fram á mikla þörf. Strax hafi það helst nýst einstaklingum sem glíma við þungan og flókinn vanda, hafa gert lengi og eiga sér hvorki heimili né annað öruggt skjól.
Ylja er öruggur staður fyrir einstaklinga til að nota vímuefni í æð. Þar er einnig reykrými þar sem einstaklingar geta reykt ópíóíða eða örvandi vímuefni undir eftirliti fagsfólks. Í Ylju er veitt lágþröskulda þjónusta, byggð á skaðaminnkandi hugmyndafræði. Þjónustuna veitir fagfólk sem veitir samhliða stuðning, fræðslu og samtal. „Ylja er griðastaður fyrir okkar mest jarðarsettu einstaklinga. Hér fær fólk öruggt skjól en líka hreinan búnað, heilbrigðisþjónustu, sálrænan stuðning og þjónustu sem það hefur rétt á en hefur hingað til ekki endilega haft aðgengi að. Við erum að lækka þröskuldana yfir í þjónustu, sem eru oft óyfirstíganlegir fyrir fólk í þessari stöðu,“ segir Sigríður Ella.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, er ánægð með að samningarnir hafi verið endurnýjaðir og er ánægð með samstarfið við Rauða krossinn. „Í Ylju er unnið gott starf og þjónustan sem þar er veitt hefur sannað gildi sitt. Þarna er að myndast mikilvæg reynsla og þekking sem nýtist einstaklingum í afar viðkvæmri stöðu,“ segir Rannveig.
Dýrmætt að upplifa öryggi og virðingu
Sigríður Ella segir fólk upplifa öryggi í neyslurýminu sem sé kærkomið, enda einkennist líf þess alla jafna af miklu óöryggi. „Margt fólk er fegið að geta komið hingað frekar en að vera í bílakjallara, inni í einhverri geymslu eða á almenningssalerni. Það getur bæði verið lífshættulegt að nota á þeim stöðum, til dæmis ef um ofskömmtun er að ræða, en þar er fólk heldur ekki velkomið. Hér í Ylju er fólk velkomið og það má ekki vanmeta áhrif þess. Það er mikils virði að hafa griðastað, þar sem vel er tekið á móti þér, af hlýju og virðingu. Við höfum fengið að heyra að hér upplifi fólk væntumþykju og von. Það er mikils virði í þeim harða heimi sem margt þeirra býr í.“
„Hér í Ylju er fólk velkomið og það má ekki vanmeta áhrif þess.“
Á árinu 2025 hafa 190 einstaklingar nýtt þjónustu Ylju en í heild eru heimsóknirnar 1798 talsins. Meðalaldur notenda þjónustunnar er 38 ár.
Gjöfult samstarf sem þyrfti að styrkja
Í Ylju eru alltaf þrír starfsmenn á vakt, þar af einn heilbrigðisstarfsmaður. Til viðbótar við það hefur hjúkrunarfræðingur af smitsjúkdómadeild Landspítalans þar fasta viðveru þrisvar í viku og þá kemur starfsfólk VoR-teymisins (Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar) þangað daglega. „Samstarf á milli kerfa og milli ólíkra fagaðila er ómetanlegt og algjört lykilatriði í starfseminni. Sérstaklega er samstarf við Landspítalann mikilvægt, því það skiptir miklu máli að hópurinn sem hingað leitar geti fengið heilbrigðisþjónustu hér. Á þessu ári hafa verið skráð nærri 600 heilbrigðistengd tilfelli hér, hjá tæplega 200 einstaklingum. Þá hefur sálfélagslegur stuðningur verið veittur í 90% tilvika og það er veigamikill þáttur í þjónustunni. Við erum þakklát fyrir samstarfið við Landspítalann og viljum gjarnan að það eflist enn frekar.“
Samningarnir voru framlengdir um eitt ár. Reykjavíkurborg ber engan kostnað vegna samningsins við Rauða krossinn um rekstur neyslurýmisins, þar sem Sjúkratryggingar Íslands leggja fé til rekstrarins, alls 57,2 milljónir króna.
Ylja er opin alla virka daga á milli 10 og 16. Símanúmerið þar er 774 2957.