Frístundastyrkur að 20 ára og frítt í strætó fyrir öll börn meðal tillagna

Skóli og frístund

Reykjavíkurráð ungmenna 2025

Fundur Reykjavíkurráðs ungmenna með borgarstjórn Reykjavíkur fór fram í 24. sinn í dag. Fulltrúar Reykjavíkurráðsins báru upp átta tillögur um málefni sem þau telja mikilvæg ungu fólki í Reykjavík.

Vilja að fjármálalæsi og lífsleikni verði fest í sessi

Tillögurnar snúa að því að frístundastyrkur verði lengdur upp í 20 ára aldur í stað 18 ára eins og hann er nú. Þá var lagt til að úttekt verði gerð á túlkun grunnskóla í borginni á matsviðmiðum aðalnámskrár við lok 10. bekkjar og athugað hvort að misræmi sé í einkunnagjöf milli skóla. Lagt var til að fjármálalæsi yrði gert að skyldufagi frá og með byrjun skólaárs 2026 og að lífsleiknikennsla verði fest í sessi sem sérstök námsgrein, að aðgengi gangandi og hjólandi í Skeifunni verði bætt, að frítt verði í strætó fyrir 18 ára og yngri. Einnig var lagt til að samstarf verði aukið milli grunnskóla og framhaldsskóla í Reykjavík í því skyni að fá framhaldsskólakynningar fyrir 10. bekkinga árlega að vori og að skóla- og frístundaráði verði falið að beita sér fyrir að allar félagsmiðstöðvar hafi til umráða húsnæði og búnað til að halda úti faglegu félagsmiðstöðvastarfi í samræmi við viðmið og stefnur Reykjavíkurborgar. Meðfylgjandi er yfirlit yfir tillögurnar sem lagðar verða fyrir borgarstjórn á fundinum.

Fundur Reykjavíkuráðs ungmenna og borgarstjórnar árviss 

Reykjavíkurborg er eitt fyrsta sveitarfélagið á landinu til að stofna ungmennaráð og nú er fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar orðinn að árvissum viðburði. Fundurinn í ár er sá tuttugasti og fjórði og tillögurnar sem lagðar hafa verið fram á fundum ungmenna og borgarstjórnar undanfarin ár hafa margar komist í framkvæmd og haft áhrif til góðs fyrir ungmenni í borginni. Þessi hefð hefur leitt af sér aukna áherslu á samstarf við ungmenni innan borgarkerfisins og á lýðræðislega starfshætti í starfi með börnum og ungmennum.

Reykjavíkurráð ungmenna 2025

Hafa veitt mikilvæga endurgjöf og eftirfylgni

Fulltrúar í Reykjavíkurráði ungmenna hafa tekið þátt í fjölbreyttum og spennandi verkefnum síðastliðið ár en ráðið hittist á vikulegum fundum yfir vetrartímann.

Ráðið á fulltrúa í skóla- og frístundaráði og stjórn barnamenningarhátíðar og hefur fylgt tillögum frá borgarstjórnarfundum eftir inn í fagráð og nefndir. Haldinn er árlegur samráðsfundur með fulltrúum frá Strætó bs. til að ræða það sem betur má fara í strætósamgöngum í borginni, veitt endurgjöf á ýmis verkefni sem verið er að vinna að í borginni hverju sinni og tekið þátt í samstarfsverkefnum og ráðstefnum. Fulltrúar ráðsins fóru á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem haldin er árlega af UMFÍ og tóku þátt í umfangsmiklu Erasmus+ verkefni sem kallast U-LYNC ásamt fulltrúum ungmenna úr níu öðrum borgum á Norðurlöndunum. Í tengslum við það verkefni hittust ungmennin meðal annars í Reykjavík í mars 2024 og fjölluðu um málefni sem þeim finnst mikilvægt að ræða og lögðu fram hugmyndir að leiðum til úrbóta. Reykjavíkurráð ungmenna skipuleggur einnig tvo starfsdaga á ári fyrir fulltrúa í öllum ungmennaráðum í Reykjavík þar sem starf og hlutverk ungmennaráðanna er til umfjöllunar. 

Reykjavíkurráð ungmenna er samráðsvettvangur allra sex ungmennaráðanna sem starfa í hverfum Reykjavíkur en hvert ungmennaráð tilnefnir sína fulltrúa í Reykjavíkurráðið. Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna og ungmennaráðanna í Reykjavík er meðal annars að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Á myndinni eru, efri röð frá vinstri: Anton Ingi Lárusson, Magnea Þórey Guðlaugsdóttir, Sverrir Logi Róbertsson, Marta Maier. Neðri röð frá vinstri: Ragnheiður Ósk Kjartansdóttir, Sóley Mjöll Ásgeirsdóttir, Ragnheiður Andrésdóttir, Ísgerður Esja Nóadóttir.