Framkvæmdir á Kringlumýrarbraut ganga vel
Framkvæmdir við nýja sérrein strætó og almenna akrein á Kringlumýrarbraut ganga vel og er verkið á áætlun. Vinnu við að minnka miðeyju og búa til nýja akrein fyrir almenna umferð er á lokametrunum. Búið er að fræsa malbik af fyrirliggjandi akreinum og í kvöld fimmtudag, er áætlað að malbikað að nýju.
Næsta skref í framkvæmdunum verður að búa til vasa fyrir strætó norðan við gatnamótin og setja upp strætóskýli ásamt því að klára sérreinina fyrir strætó. Að því loknu verður farið í yfirborðsfrágang. Áætluð verklok eru 15. ágúst.
Virðum hámarkshraða
Hraði í gegnum framkvæmdasvæðið hefur verið lækkaður í 30 km/klst meðan á framkvæmdum stendur. Lögreglan hefur komið á svæðið tvisvar og mælt hraða ökutækja. Í báðum tilfellum voru vel yfir 30% ökumanna yfir hámarkshraða. Merkingar á vinnusvæðum, þrengingar og tímabundin lækkun hámarkshraða eru mikilvægir þættir í að tryggja öryggi starfsfólks ásamt eðlilegum framgangi framkvæmd. Ökumenn eru beðnir um að sýna tímabundnum takmörkunum þolinmæði og virða hámarkshraða.
Forgangur fyrir strætó og nýjar stöðvar
Verkið felst í uppbyggingu á nýrri forgangsrein fyrir strætó á 400 metra kafla á Kringlumýrarbraut, milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar, vestan megin á götunni, með akstursstefnu í suður, uppbyggingu á nýrri akrein fyrir almenna umferð, auk þess sem miðeyja verður minnkuð og endurgerð til að skapa pláss fyrir nýja akrein. Girðing á miðeyjunni verður fjarlægð og í staðinn sett upp vegrið. Allar akreinar á þessum kafla verða fræstar og malbikaðar upp á nýtt. Einnig þarf að taka niður og færa til ljósastaura.
Nýjar strætóstöðvar verða reistar sitt hvoru megin við Háaleitisbraut. Ráðgert er að strætóleið 4 taki breytingum og aki beina leið eftir Kringlumýrarbraut þegar forgangsreinin verður tilbúin. Ferðatími strætófarþega mun styttast um 4-5 mínútur án þess að hafa áhrif á ferðatíma annarra ökutækja.
Vegagerðin, Betri samgöngur, Reykjavíkurborg og Strætó vinna saman að þessu verkefni, sem er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum. Verktaki er D. Ing-verk.