Fræðsla um Vatnsmýrina á norrænni ráðstefnu

Umhverfis- og skipulagssvið er einn af samstarfsaðilum Icewater. Dagana 3.–5. júní sl fór Norræna vatnaráðstefnan (NHC) fram á Íslandi. Þar komu saman sérfræðingar frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum til að ræða áhrif loftslagsbreytinga á vatnaumhverfi, og hvernig bregðast megi við með aðlögun og mótvægisaðgerðum.
Styrkur frá Evrópusambandinu

LIFE Icewater hlaut styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. LIFE Icewater er ætlað að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi, að tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu í vatnamálum, bæta vatnsgæði, svo sem með úrbótum á fráveitu og hreinsun fráveituvatns, og að fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns. Verkefnunum er skipt upp í sjö hluta og verða unnin á árunum 2025 til 2030. 23 aðilar taka þátt í þessu verkefni en Umhverfis- og orkustofnun leiðir verkefnið.
Gestir á ráðstefnunni fóru í skoðunarferð í lok vatnafræðiráðstefnunnar. Í Vatnsmýrinni rakti Stefán Pálsson sagnfræðingur sögu svæðisins. Ágúst Guðmundsson frá verkfræðistofunni Vatnaskil fór yfir vatnafræði Vatnsmýrar. Haraldur Rafn Ingvason hjá Hafró kynnti helstu niðurstöður vöktunar á lífríki Vatnsmýrar og Tjarnar. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur sagði frá fuglalífi svæðisins og Þórólfur Jónsson hjá umhverfis- og skipulagssviði sagði frá skipulagi og gerð friðlands í Vatnsmýri og aðgerðir til að bæta vatnsgæði. Einnig gerði borgin veggspjald með upplýsingum um Tjörnina.
Fjallað um Tjörnina á vatnaráðstefnunni
Fram kom hjá Þórólfi, Benedikti Traustasyni og Önnu Rósu Böðvarsdóttur frá borginni, að þótt efnamengun í Tjörninni hafi mælst, þá hafi líffræðilegt ástand Tjarnarinnar batnað á síðastliðnum árum. Tjörnin er staðsett í hjarta borgarinnar. Fuglafána Tjarnarinnar hefur verið vöktuð meira og minna samfellt frá 1973. Fimm andategundir hafa verið árvissir varpfuglar á þessu tímabili. Tjörnin skartar ríkulegu fuglalífi yfir veturinn og fjöldi andfugla hefur þar vetursetu, mest áberandi í þeim hópi eru stokkönd, grágæs og álft.
Lífríki vatnsins hefur verið vaktað undanfarin 10 ár og einnig er fylgst með vatnsbúskap Tjarnarinnar en í hana rennur bæði grunnvatn og yfirborðsvatn.
Markmiðið er að kortleggja þá mengun sem berst í Tjörnina og finna lausnir til framtíðar. Nefna má að nú í vor lauk endurgerð Stóra Hólmans í Tjörninn og áður var hólminn í Þorfinnstjörn lagaður til að bæta aðstæður fuglalífs ekki síst fyrir kríuvarp. Áformað er að bæta einnig aðstæður í Litla Hólmanum í Tjörninni. Á næstunni muni hefjast sýnatökur á seti og vatni í Tjörninni og að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur muni halda utan um það
Endurbótum á friðlandinu í Vatnsmýri lauk 2014 þegar lokið var við að grafa síki umhverfis svæðið með brúm sem teknar eru upp yfir varptíma fugla.
