Forseti Íslands opnaði sýningu norrænna barna í Listasafni Íslands

Skóli og frístund

Opnun SPIN verkefnisins í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, flutti ávarp og opnaði sýningu 250 norrænna barna í Listasafni Íslands þann 3. apríl í tengslum við Nordplus verkefnið SPIN. SPIN stendur fyrir Sprogvenner i Norden - kunsten at forstå hinanden eða Tungumálavinir á Norðurlöndum – listin að skilja hvert annað.

Fjöltyngi er dýrmæt auðlind

Verkefnið, sem er til tveggja ára, byggir á þeirri grunnhugsun að fjöltyngi sé dýrmæt auðlind. Markmiðið er að efla næmni fyrir menningarlegum fjölbreytileika og stuðla að inngildingu. Börnin unnu verkefni sem dýpka skilning á eigin tungumálum og menningarlegum fjölbreytileika, sem og jafnaldra sinna á Norðurlöndum.

Opnun SPIN verkefnisins í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Nemendur í 6. bekk Háteigsskóla og Melaskóla voru gestgjafar jafnaldra sinna frá Danmörku og Færeyjum. Sýning á verkum barnanna stendur yfir í Safnahúsinu á Barnamenningarhátíð.

Næsta sýning verður í Árósum

Samstarfsaðilar SPIN verkefnisins eru Listasafn Íslands, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Miðja máls og læsis, Melaskóli, Háteigsskóli ásamt Eysturskúlin í Þórshöfn í Færeyjum, Skovvangskolen, Kulturkompasset og menningarstofnunin Dokk1 í Árósum í Danmörku. Kristín R. Vilhjálmsdóttir er verkefnastjóri SPIN.

Í lok september fara fulltrúar nemenda úr Háteigsskóla og Melaskóla til Árósa og vinna áfram með viðfangsefni verkefnisins ásamt dönskum og færeyskum nemendum fyrir sýningu á Dokk1. Næsta sýning verkefnisins verður á Dokk1 í Árósum í lok september.