Fögnuðu opnun nýs og glæsilegs íbúðakjarna

Mynd af framhlið nýs íbúðakjarna að Brekknaási

Á næstu vikum munu sex einstaklingar flytja í nýjan og glæsilegan íbúðakjarna að Brekknaási í Árbæjarhverfi. Íbúðakjarninn er sérstaklega hannaður með tilliti til þarfa íbúanna og stuðnings við þá. Íbúðakjarninn er 665 m2 á stærð, á einni hæð. Í honum eru sex íbúðir, hver þeirra um sextíu fermetrar, auk sameiginlegs rýmis vegna þjónustu við notendur. 

Félagsbústaðir afhentu Reykjavíkurborg íbúðakjarnann formlega í dag. Við athöfnina tók Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri við lyklunum úr hendi Sigrúnar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Félagsbústaða. Heiða sagðist stolt af uppbyggingu undanfarinna ára, en frá 2018 hefur Reykjavíkurborg tekið í notkun 21 íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. Hún óskaði tilvonandi íbúum til hamingju með ný heimili og sagðist þakklát fyrir að eiga hlutdeild í þeirri stund þegar fólk eignast ný heimili.

Gjöful samvinna til að tryggja gæðin

Sigrún sagðist að sama skapi ánægð með hvernig til tókst með byggingu hússins. „Hér lögðum við okkur öll fram við að mæta þörfum íbúanna. Arkitektarnir, þær Eva Huld Friðriksdóttir, Magnea Guðmundsdóttir og Birta Fróðadóttir, hafa staðið sig með mikilli prýði. Það sama gildir með alla sem hafa komið að þessu verkefni,“ segir hún. 

Borgarstjóri og formaður velferðarráðs afhenda forstöðumanni lyklana að íbúðakjarnanum.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður velferðarráðs, afhenda Stefaníu Smáradóttur forstöðumanni lyklana að kjarnanum. 

Sem fyrr segir var tekið tillit til sérstakra þarfa íbúanna við hönnun hússins. Settur var saman þarfagreiningarhópur sem í sátu arkitektarnir og fulltrúar Félagsbústaða, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Þroskahjálpar. Þá höfðu íbúar og aðstandendur, auk forstöðumanns íbúðakjarnans og annarra forstöðumanna íbúðakjarna á vegum velferðarsviðs, beina aðkomu að vinnunni. Þarfagreiningin var höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um efnisval, hljóðvistarkröfur, stýringu dagsbirtu, læsileika og fleira. Þá voru þróaðar ýmsar sértækar lausnir. 

Þrír kjarnar í byggingu eða undirbúningi 

Sem fyrr segir hefur Reykjavíkurborg tekið í notkun 21 íbúðakjarna fyrir fatlað fólk frá því árið 2018. Félagsbústaðir eru nú með tvo íbúðakjarna í byggingu. Annan við Nauthólsvík 83, sem áætlað er að verði tilbúinn næsta sumar og hinn í Stefnisvogi, sem ráðgert er að verði tekinn í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2026.  Þá eiga framkvæmdir við nýbyggingu við Stekkjabakka að hefjast á árinu 2026.