Fleiri foreldrar fá fræðslu til að takast á við foreldrahlutverkið

Meðferðaraðilar, foreldrar, sérfræðingar og annað áhugafólk um PMTO-foreldrafærni saman komin í Norræna húsinu til að fagna því að PMTO hefur verið við lýði í 25 ár. Róbert Reynisson
Meðferðaraðilar, foreldrar, sérfræðingar og annað áhugafólk um PMTO-foreldrafærni saman komin í Norræna húsinu til að fagna því að PMTO hefur verið við lýði í 25 ár.

Hópur foreldra sem fengið hafa PMTO-þjónustu sögðu frá jákvæðri reynslu sinni í pallborði á metnaðarfullum fræðsludegi sem haldinn var í Norræna húsinu í síðustu viku. Þar voru meðferðaraðilar, foreldrar, sérfræðingar og annað áhugafólk um PMTO-foreldrafærni saman komin til að fagna því að PMTO hefur verið við lýði í 25 ár hér á landi með afar góðum árangri. 

PMTO er gagnreynt meðferðarúrræði fyrir foreldra barna með hegðunarerfiðleika. Tíu sveitarfélög víðs vegar um landið bjóða foreldrum PMTO-fræðslu og árlega fá um 700 foreldrar þjónustu, auk þess sem margir skólar njóta góðs af skólaútgáfu aðferðarinnar (SMT). Foreldrar sem óska eftir þjónustunni sækja um það í sínu sveitarfélagi, ýmist í gegnum skóla barnsins eða til velferðar- eða skólaþjónustu sveitarfélagsins. 

Gera má ráð fyrir að enn fleiri börn og fjölskyldur þeirra munu bætast í þennan hóp á næstunni, því nýverið veitti mennta- og barnamálaráðuneytið fjárhagslegan stuðning til áframhaldandi reksturs PMTO-miðstöðvar. Henni er ætlað að þjóna landinu öllu en Keðjan, sem er starfseining innan Reykjavíkurborgar sem veitir stuðningsþjónustu fyrir börn, hefur tekið að sér að veita miðstöðinni faglega forystu, í samstarfi við rannsóknarstofu hjá Menntavísindasviði HÍ, næstu tvö árin. Fyrst um sinn mun Reykjavíkurborg hýsa úrræðið og er unnið að því að finna því varanlegan stað hjá ríkinu. 

Metnaðarfull dagskrá í Norræna húsinu

Fyrir hádegi í dag var dagskrá fyrir meðferðaraðila, þar sem meðal annars voru skoðaðar leiðir varðandi fjarfundaþjónustu og hvernig jákvæð samvera og afskipti foreldra og barna fléttast inn í PMTO-verkfæri. Eftir hádegi bættust fleiri gestir við. Þá fengu viðstödd að heyra raddir foreldra, rannsóknarniðurstöður voru kynntar, fjallað um innleiðingu PMTO í Noregi og þá var að lokum flutt erindi frá móðurstöðu PMTO í Oregon í Bandaríkjunum. 

Það voru Miðstöð PMTO á Íslandi, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Keðjan, sem sér um stuðningsþjónustu við börn hjá Reykjavíkurborg og Akureyrarbær sem stóðu sameiginlega að fræðsludeginum. 

„Bjargaði lífi barnsins míns“

Rannsóknir sýna að foreldrar sem hafa fengið PMTO-þjónustu eru mjög ánægðir, þeir styrkjast í uppeldishlutverki sínu og finna jákvæðar breytingar sem geta skipt sköpum fyrir framtíð barnsins og fjölskyldunnar. Þetta endurspeglaðist í pallborði dagsins, þar 

þar sem nokkrir foreldrar tóku þátt og lýstu reynslu sinni af PMTO. Börn þeirra eru á öllum aldri, af ólíkum þjóðernum og eiga við ólíkar áskoranir að glíma. Öllum foreldrunum bar hins vegar saman um að verkfærin sem þeir höfðu fengið í gegnum meðferðarstarfið hefðu hjálpað börnunum og fjölskyldum þeirra mikið. Foreldrarnir sögðu samskipti við börnin hafa batnað mikið en jafnframt samskipti við skóla, eigin foreldra eða aðra fjölskyldumeðlimi og aðra í nánasta umhverfi barnanna. Einn faðir gekk svo langt að segja að meðferðin hafi bjargað lífi barns hans. Með hjálp þeirra verkfæra sem foreldrar þess fengu með PMTO hafi þeim tekist að snúa afar neikvæðum samskiptum við barnið og fólk í hans nánasta umhverfi í jákvæð. Í dag sé barnið hamingjusamt og allt gangi að óskum. Hinir foreldrarnir tóku undir orð föðurins og höfðu sambærilega sögu að segja. 

Spare styður við inngildingu og góða aðlögun

Frá því að PMTO-meðferðir hófust hér á landi fyrir 25 árum hafa þær þróast til að mæta breyttum þörfum samfélagsins. Til að mynda hefur SPARE-aðferðin orðið til sem er PMTO-úrræði sérsniðið að flóttafólki og þykir stuðla að inngildingu og góðri aðlögun. 

Á fræðsludeginum kom fram að ýmis tækifæri væru til að þróa þá nálgun enn frekar. Þá séu jafnframt mikil tækifæri til frekari þróunar innan barnaverndar.