Fjölskyldur og unglingar sameinuðust í gleði og virkni í félagsmiðstöðvunum

Svipmyndir úr félagsmiðstövðum á félagsmiðstöðvadaginn.

Árlegur félagsmiðstöðvadagur var haldinn hátíðlegur í félagsmiðstöðvunum í Reykjavík á dögunum. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á því fjölbreytta og uppbyggilega frístundastarfi sem fram fer í félagsmiðstöðvum borgarinnar. 

Dagurinn er hluti af félagsmiðstöðva- og ungmennahúsaviku sem haldin er um allt land á vegum SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi. Dagurinn hefur verið haldinn sérstaklega hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005.

Stemning úti um alla borg

Í Tónabæ var frábær mæting og gestum boðið að perla, lita, spila og búa til armbönd og hálsmen. Í Frosta ríkti gríðarleg stemming með spurningakeppni, spilafjöri, borðtennis og fleiru skemmtilegu. Í Bakkanum í Breiðholti var mikið um dýrðir þar sem 15 ára afmæli félagsmiðstöðvarinnar var fagnað og komu fyrrverandi starfsfólk og velunnarar í heimsókn og kynntu sér starfsemina. Í Holtinu stýrðu unglingar bingóleik fyrir fullu húsi og stóðu sig með prýði.

Borgarstjóri í heimsókn í félagsmiðstöð
Heiða Björg Hilmisdóttir heimsótti félagsmiðstöðina Frosta þar sem var stemning fyrir myndatöku.

Kepptu við foreldrana í fótboltaspili

Í Buskanum var fjölskyldan í forgrunni og gestir tóku virkan þátt í dagskránni. Þar kepptu bræðurnir Olek og Pawel í fótboltaspili við foreldra sína, Önnu og Adrian, og höfðu yfirhöndina í leiknum þegar staðan var tekin. Fjölskyldan flutti til Íslands frá Póllandi fyrir átta árum og segjast foreldrarnir mjög ánægð með félagsmiðstöðvastarfið, sem þau telja mikilvægt fyrir virkni og þátttöku unglinga. Þeim fannst mikið til starfsins koma og segjast ekki þekkja til sambærilegs starfs í heimalandinu. Olek, sem sækir Buskann reglulega, býr í 20 mínútna fjarlægð og segir gott að geta komið og hitt vini sína þar.

Svipmyndir úr félagsmiðstövðum á félagsmiðstöðvadaginn.
Olek og Pawel vinstra megin og Anna og Adrian hægra megin háðu harða keppni.

Seldu pizzur í massavís

Í fjáröflunarskyni fyrir árshátíð skólans voru seldar pizzur í massavís. Foreldrar sáu um að hnoða deig í 100 pizzur en unglingarnir sáu um rest. Viktoría Ýr Daníelsdóttir og Kristín Björt Eiðsdóttir úr 8. bekk voru meðal þeirra sem stóðu vaktina og pizzurnar streymdu út og seldust upp að lokum! Þá var boðið upp á kviss-spurningakeppni, blinda tónlistargetraun og fjölbreytta dagskrá sem unglingarnir sjálfir mótuðu.

Svipmyndir úr félagsmiðstövðum á félagsmiðstöðvadaginn.
Pizzurnar í Buskanum ruku út eins og heitar lummur.

Magnús Björgvin Sigurðsson forstöðumaður Buskans segir daginn vera hugsaðan sem blöndu af fjölskyldudegi og fjáröflun og sé góður grundvöllur fyrir mikilvægt samstarf við foreldra. Hann segir daginn jafnan vel sóttan og skemmtilegan og styrki þátttöku barna í félagsmiðstöðvarstarfinu.

Magnús í Buskanum.
Magnús Björgvin Sigurðsson, förstöðumaður Buskans segir daginn mikilvægan til að styrkja foreldrasamstarf.