Fjölmörg spennandi verkefni í miðborginni sumar

Framkvæmdir eru nú hafnar eða á döfinni á fjölmörgum stöðum í miðborg Reykjavíkur með það að markmiði að bæta aðstöðu, auka gróður og skapa aðlaðandi og lifandi borgarumhverfi.
Sumarið 2025 verður spennandi hjá deild Borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg sem hefur það hlutverk að móta og þróa borgarumhverfið með áherslu á mannvæna hönnun, sjálfbærni og aukin lífsgæði íbúa. Deildin kemur að fjölbreyttum verkefnum sem snúa að hönnun og endurbótum á almenningsrýmum, götum og torgum.
Helstu verkefni sem deild Borgarhönnunar kemur að í sumar eru:
Skólavörðustígur
Á göngugötuhluta Skólavörðustígs verður unnið að því að bæta ásýnd svæðisins með aukinni gróðursetningu og endurbótum á setsvæðum og almenningsrýmum. Verkefnið byggir á fyrri umbótum og miðar að því að styrkja göngugötuna sem lifandi og notalegt svæði.
Vegamótastígur og Vatnsstígur
Við Vegamótastíg frá Grettisgötu fer fram hönnun á aðgengisbreytingum sem er aðlögun á göngugötu og á Vatnsstíg standa yfir framkvæmdir við nýja göngugötu. Báðar göturnar verða mótaðar með áherslu á notendavæna hönnun, dvalarsvæði og aukinn gróður.
Hlemmur
Á Hlemmi verður unnið með biðsvæði í tengslum við framkvæmdaráfanga torgsins. Þar á meðal er búið að koma upp tímabundnum leikvelli (pop-up leikvelli), dvalarsvæði verða aukin með skemmtilegum götugögnum, ásamt því að unnin verður hönnun í samstarfi við arkitektanema hjá LHÍ í tengslum við ásýnd framkvæmdasvæða.
Einnig verður unnið að hönnun suður- og norðursvæðis við mathöllina, með áherslu á vistvæna og fjölnota nýtingu.
Hjartatorg
Í samstarfi við hagaðila og með stuðningi þverfaglegs hönnunarteymis verður Hjartatorg endurhannað með bættum dvalarsvæðum og fjölbreyttum gróðri. Verkefnið felur í sér að styrkja ásýnd og notagildi svæðisins sem hluta af daglegri borgarnotkun.
Vitatorg
Á Vitatorgi verður áfram unnið að vistvænni þróun í samstarfi við verkefnið Sumarborgin 2025. Þar fjölgar gróðurhúsum sem stuðla að grænni upplifun og aukinni fjölbreytni í miðborginni.
Bernhöftstorfa
Í Bernhöftstorfu verða sett upp ný götugögn sem bæta aðstöðu og hvetja til dvalar. Verkefnið miðar að því að styrkja svæðið sem rólegt og notalegt rými fyrir vegfarendur og gesti.
Torg í biðstöðu
Verkefnið Torg í biðstöðu 2025 heldur áfram en aldrei áður hafa fleiri sótt um þátttöku, en alls bárust 23 umsóknir. Markmið verkefnisins í ár er að skapa líf í skógarrýmum borgarinnar. Þannig verða torg nýtt undir gróður, leik og fræðslu.