
Í nýlegri könnun Sameykis komust félagsmiðstöðvarnar 105, Sigyn og Fjörgyn á topp fimm lista yfir fyrirmyndarstarfsstaði borgarinnar í flokknum litlir starfsstaðir. Sigyn hlaut fleiri stig en nokkur önnur stofnun borgarinnar eða 4.832 af 5.000 mögulegum.
Góður starfsandi og gaman í vinnunni
Félagsmiðstöðin Fjörgyn hlaut titilinn fyrirmyndarstarfsstaður í Stofnun ársins. Starfsfólk Fjörgynjar er ánægt í starfi, starfsandi er frábær og starfsfólk er stolt og ánægt með samstarfsfólk og börnin og unglingana sem sækja félagsmiðstöðvastarfið. Starfsfólki finnst gaman að mæta í vinnuna, mikill vinskapur milli starfsfólks og lýðræðisleg vinnubrögð höfð í hávegum.

Hrósa hvert öðru
„Í 105 erum við með fagfólk með mikinn metnað fyrir starfinu. Við tölum opinskátt um þá hluti sem mega betur fara á sama tíma og við hrósum hvert öðru fyrir það sem vel gengur. Liðsandinn í starfsmannahópnum er síðan mjög góður en undanfarin ár höfum við verið með nokkuð þéttan hóp þar sem starfsmannaveltan hefur verið minni en árin þar á undan. Fyrst og fremst held ég að 105 sé góður vinnustaður því okkur finnst gaman að vera í vinnunni,” segir Hafsteinn Bjarnason, forstöðumaður 105.

Finnst frábært að vinna með börnum og unglingum
Félagsmiðstöðin Sigyn var í fyrsta sæti sem stofnun ársins 2024, með flest stig í könnuninni. Vinnustaðurinn einkennist af mikilli starfsánægju og frábærum starfsanda. Starfsfólki Sigynjar líður vel í vinnunni, segir að það sé frábært að vinna með börnum og unglingum í Rimaskóla og að það sé ýtt undir frumkvæði og hugmyndir starfsfólks og unglinga að skipuleggja starfsemina. Njörður Njarðarson er forstöðumaður Sigynjar og fær fullt hús stiga fyrir stjórnun í könnunni.
