Færeysk hreystimenni heimsækja borgarstjóra

12 vaskir Færeyingar heimsóttu Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra í síðustu viku. Í hópnum var Poul Michelsen, fyrrverandi borgarstjóri Þórshafnar, sem spjallaði við Heiðu um borgarstjórastarfið.
Þeir félagarnir eru í Renni og göngufélaginu, en á sínum yngri árum voru þeir knattspyrnumenn í HB liði Þórshafnar. Þeir vinirnir fara í göngutúr í Þórshöfn á hverjum morgni sér til hressingar og heilsueflingar.
Poul Michelsen er fyrrverandi borgarstjóri Þórshafnar (1981-1992), þingmaður á Lögþingi Færeyja (1984-1990 og 2002-2020) og viðskipta- og utanríkisráðherra (2015-2019).
Poul, sem er 80 ára, er mikill Íslandsvinur og hefur margoft komið til Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1991. Poul á ekki aðeins að baki farsælan feril sem stjórnmálamaður heldur er hann einnig þekktur íþróttakappi í heimabæ sínum, var í landsliði Færeyja í fótbolta og margfaldur Færeyjameistari í badminton og borðtennis.
Vígsla Ráðhúss Reykjavíkur
Þann 14. apríl 1992, þegar ráðhúsið í Reykjavík var vígt, voru haldnar ræður í tilefni tímamótanna. Meðal ræðumanna voru Markús Örn Antonsson, borgarstjóri, Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, Davíð Oddsson, forsætisráðherra og Poul Michelsen, borgarstjóri Þórshafnar, en hann flutti kveðju til Reykvíkinga fyrir hönd borgarstjóra höfuðborga Norðurlandanna.

Sungið fyrir borgarstjóra
Það var glatt á hjalla á fundinum með Heiðu Björgu borgarstjóra, þau ræddu um reynslu sína af störfum sem borgarstjórar í sitt hvoru landinu. Heiða sagði frá helstu verkefnum borgarinnar og Poul sagði frá því þegar hann flutti ávarp við vígslu ráðhússins árið 1992. Í ræðu sinni sagði hann að það byggi stórhugur í Íslendingum og bygging Ráðhússins sannaði það.
Í lok heimsóknarinnar í Ráðhúsið söng hópurinn lagið Eins og áarstreymur rennur. Poul og félagar segja að það sé hollt fyrir sálina að syngja og að Íslendingar syngi allt of lítið. Færeyingar syngi miklu meira!
Auk heimsóknar til borgarstjóra fóru hópurinn á Sendiskrifstofu Færeyja, heimsóttu Hörpu, fóru til Akraness og svo Gullna hringinn. Þeir héldu heim til Færeyja á föstudaginn.
Við þökkum þessum frændum okkar Færeyingum fyrir komuna!