Engir tveir dagar eins í vettvangshjúkrun

Arndís Vilhjálmsdóttir er annar tveggja hjúkrunarfræðinga sem sinna hjúkrun í málaflokki heimilislausra í Reykjavík. Engir tveir dagar eru eins hjá teyminu sem sinnir hjúkrun í neyðarskýlum, á íbúðakjörnum fyrir fólk með fíknivanda, í „housing first“ íbúðum og annars staðar þar sem þörf krefur. Arndís er jafnframt höfundur greinar sem valin var rannsóknargrein ársins 2023 hjá fagtímaritinu Journal of Forensic Nursing, en hún gerði rannsókn á líðan kvenna í íslenskum fangelsum.
Tæp tvö ár eru liðin frá því að auglýst var eftir fyrsta hjúkrunarfræðingnum til að sinna hjúkrun á vettvangi í Reykjavík en Reykjavíkurborg sér um heimahjúkrun með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Arndís Vilhjálmsdóttir geðhjúkrunarfræðingur fékk starfið en hún hefur mikla reynslu af störfum í málaflokki heimilislausra og fólks með fíknivanda. Á starfsferli sínum hefur hún bæði starfað á geðsviði Landspítalans og í geðheilsuteymi fanga, þar sem hún starfaði bæði á Hólmsheiði og á Litla-Hrauni. Arndís fékk það hlutverk að móta starf teymisins. Síðar bættist hjúkrunarfræðingurinn Anna Lilja Másdóttir við en hún hefur mikla reynslu af klínískri hjúkrun, meðal annars af bráðamóttöku Landspítalans.
Engir tveir dagar eins
Þær Arndís og Anna Lilja starfa undir hatti SELMU-teymisins innan heimahjúkrunar og hafa aðsetur á Læknavaktinni. Alla jafna eru þær þó á ferðinni um bæinn og eru helstu viðkomustaðir þeirra neyðarskýlin auk þeirra íbúðakjarna og stöku íbúða á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, þar sem fólk býr sem er í virkri vímuefnaneyslu. Þær veita einnig ráðgjöf til starfsfólks og eru í góðu samstarfi við VoR teymi Reykjavíkurborgar. Þær leggja líka mikla áherslu á að tengja saman ólíka fagaðila sem starfa í málaflokknum.

Hópurinn sem þær sinna er oftar en ekki bæði með félagslegan og heilbrigðistengdan vanda og eru verkefnin því af ýmsum toga. Þær Arndís og Anna Lilja sinna hjúkrun, fylgjast með einkennum sjúkdóma og fylgja eftir lyfjameðferðum, veita margvíslegan stuðning, auk þess að gegna því hlutverki að vera nokkurs konar málsvarar hópsins innan heilbrigðis -og félagsþjónustunnar. Þær reyna þannig að sjá til þess að einstaklingar innan hópsins fái nauðsynlega þjónustu, þrátt fyrir að nota vímuefni.
Margt hafi breyst á undanförnum árum
Arndís segir þekkingu, skilning og áhuga á aðstæðum fólks með fíknivanda hafa aukist á undanförnum árum, bæði innan kerfa og almennt í samfélaginu. „Ég byrjaði að vinna á fíknigeðdeild árið 2007. Á árunum eftir það fór skaðaminnkun að ryðja sér til rúms en á þessum tíma voru mjög fáir sem þekktu það hugtak,“ segir hún. Smám saman hafi þjónusta við hópinn verið bætt og samvinna verið aukin á milli kerfa. Verið sé að stíga mikilvæg skref í rétta átt. Enn þurfi þó að auka þjónustuna og mynda meiri samfellu í henni. Það eigi til að mynda við um heilbrigðisþjónustu við fólk sem tekið er að eldast. „Þessi hópur eldist eins og aðrir og þarf bæði félagslegan stuðning og heilbrigðisþjónustu. Við sinnum til að mynda einstaklingum sem eru komnir með minnisskerðingu og þurfa á talsverðri umönnun að halda. Það skortir hjúkrunarrými eða sérhæfðari húsnæði fyrir þann hóp,“ segir hún.
Gerði rannsókn á reynslu kvenna af betrun í fangelsum
Í fyrra var grein eftir Arndísi valin sem rannsóknargrein ársins í fagtímaritinu Journal of Forensic Nursing. Greinin byggði á meistaraverkefni hennar úr þverfaglegu framhaldsnámi í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri þar sem hún rannsakaði reynsluheim kvenna í íslenskum fangelsum og reynslu þeirra af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsis. „Mér fannst konurnar sem tóku þátt í rannsókninni taka mér ofsalega vel og vera tilbúnar að deila mörgu með mér,“ segir Arndís. Sömu þemun hafi komið upp aftur og aftur í samtölunum. Konurnar hafi talað um iðjuleysi sem þeim fannst auka á vanlíðan þeirra og fíkn í vímuefni. Upp til hópa sáu þær fangelsisvistina ekki sem betrunarvist og þótti hún hafa skaðleg áhrif á líkamlega heilsu og andlega líðan þeirra.
Arndís segir vitundarvakningu hafa orðið á undanförnum árum og að nú átti enn fleiri sig á því hversu stór þáttur áföll séu í lífi langflestra sem glími við fíkn. „Fangelsi er ekki ákjósanlegur staður til að veita áfallameðferð. Hér á Íslandi eru konur vistaðar í öryggisfangelsinu á Hólmsheiði, með tilheyrandi skerðingu á frelsi, öryggisleit, læstum hurðum og stífrar öryggisgæslu. Konur sitja oftast inni fyrir brot vegna vímuefnanotkunar sinnar og þurfa fæstar umhverfi af þessu tagi. Fangelsi fyrir konur þyrftu að vera hlýlegri og opnari, með meiri heimilisbrag.“ Skýrsla umboðsmanns Alþingis frá árinu 2023 kemst að sömu niðurstöðu.
Hún segir muninn á körlum og konum oft þann að konur séu eldri þegar þær koma inn til afplánunar. Þær hafi þá meiri áfallasögu að baki og glími frekar við geðrænan vanda en karlkyns fangar. „Það er mikilvægt fyrir öll sem starfa með konum í þessari stöðu séu meðvituð um þetta og nálgist þær á þeim forsendum.”