Endurskoðun á samþykkt um skilti í Reykjavík

Samþykkt um skilti í Reykjavík eru reglur sem gilda um meðal annars stærðir skilta og staðsetningu með tilliti til ýmissa þátta er varða skipulag. Mynd/Róbert Reynisson
fólk á gangi á göngugötu

Vinna við nýja samþykkt um skilti í Reykjavík er í gangi og hefur endurskoðuð samþykkt verið birt í samráðsgátt. Hún opnar á fleiri útfærslur skilta, skýra gildandi leiðbeiningar, og skerpa á atriðum sem ekki voru tekin fyrir í gildandi samþykkt. Frestur til athugasemda er til 26. september. 

Samþykkt var að setja drög að nýrri og endurskoðaðri samþykkt um skilti í Reykjavík í samráðsgátt Reykjavíkurborgar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 3. september 2025. Tilgangur þess er að leita eftir ábendingum og athugasemdum frá þeim sem hafa hagsmuna að gæta, þar eru meðal annars íbúar, rekstraraðilar, stofnanir, félög og hagsmunasamtök, fyrirtæki og í raun öll þau sem láta málið sig varða. 

Búið að einfalda samþykktina

Samþykkt um skilti í Reykjavík eru reglur sem gilda um meðal annars stærðir skilta og staðsetningu með tilliti til ýmissa þátta er varða skipulag. Vinna við endurskoðun á samþykkt um skilti í Reykjavík snertir marga fleti í stjórnsýslu borgarinnar og hafa fulltrúar frá deild skipulags, deild samgöngustjóra, deild borgarhönnunar, deild lögfræði og stjórnsýslu og deild afnota og eftirlits. 

Helstu breytingar sem orðið hafa við endurskoðun samþykktarinnar eru meðal annars þær að heimilaðar stærðir skilta eru auknar á flestum landnotkunarsvæðum. Að auki er búið að sameina flokkana auglýsingaskilti og þjónustuskilti í einn flokk auglýsingaskilta. Samþykktin er þar að auki orðin einfaldari en þó þannig að þeir aðilar sem þurfa að nýta sér samþykktina eigi að geta lesið sér til um það hvað skal hafa í huga þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir skilti.