Endurhönnun gatna í Hlíðunum

Til standa breytingar á einstefnugötum í Hlíðahverfi og endurnýjun Lönguhlíðar.
Til standa breytingar á einstefnugötum í Hlíðahverfi og endurnýjun Lönguhlíðar.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á einstefnugötum í Hlíðahverfi og endurnýjun Lönguhlíðar, í samræmi við forhönnunarteikningar.

Veitur stefna á endurnýjun lagna í Hlíðunum á komandi árum, sem kallar á töluvert rask á yfirborði gatna í hverfinu. Þetta skapar tækifæri til að endurhugsa göturýmin með tilliti til reynslu og breyttra þarfa íbúa.  

Fyrirhugað er að umbreyta Lönguhlíð í borgargötu í samræmi við hverfisskipulag Hlíða. Sömuleiðis á að endurgera Drápuhlíð og bæta við gangstétt þeim megin þar sem gangstéttina vantar. Markmið breytinganna er að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og gera allt umhverfið öruggara og vistlegra ásamt því að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir sem draga úr álagi á núverandi fráveitukerfi og hreinsar ofanvatn. 

Samráð við íbúa og hagaðila 

Áætlaðar breytingar eru í samræmi við stefnu borgarinnar um meðhöndlun ofanvatns og vistvænar samgöngur. Á síðasta ári var lögð könnun fyrir íbúa þar sem þeir völdu á milli tveggja útfærslna á einstefnugötum. Sú útfærsla sem hlaut um 75% atkvæða gerir ráð fyrir að núverandi fjöldi bílastæða haldist óbreyttur, en skástæðum bílastæðum verður breytt í samsíða stæði, sem gerir kleift að bæta við gangstéttum beggja vegna og innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Ekki var boðið upp á valmöguleikann að velja núverandi útfærslu því bílastæði þar sem sú útfærsla uppfyllir ekki kröfur til umferðaröryggis né markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um gönguvæna borg. 

Reykjavíkurborg leitaði einnig umsagna frá íbúasamtökum og hagaðilum. Umsagnir sem bárust lögðu áherslu á mikilvægi umferðaröryggis og að tekið yrði tillit til aukinnar þjónustu og nýtingar á svæðinu. Það verður gert við áframhaldandi undirbúning verkefnisins líkt og fram til þessa.  

Næstu skref 

Framkvæmdir við endurnýjun lagna hefjast í ár í Lönguhlíð og Drápuhlíð, og áætlað að aðrar götur hverfisins verði teknar á árunum þar á eftir. Er Drápuhlíð notuð sem dæmi um hvernig aðrar einstefnugötur verði útfærðar. 

Með samþykkt tillögunnar er lagður grunnur að endurbótum sem stuðla að betra aðgengi, vistvænni umhverfi og auknu öryggi í Hlíðahverfi.