Endurbætur í Vesturbæjarlaug – framlenging á lokun
Umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir hafa staðið yfir í Vesturbæjarlaug undanfarið. Nú er ljóst að fara þarf í meiri múrviðgerðir en áætlað var og það kallar á frestun á opnun – nýr áætlaður opnunardagur er 15. júlí næstkomandi.
Upphaflega var gert ráð fyrir ákveðnum tímafresti á lokun, en þegar unnið er að endurbótum á eldri mannvirkjum, geta komið upp ófyrirséð atriði sem hafa áhrif á framvindu verksins.
Laugarkerið sjálft, sem byggt var árið 1961, reyndist í verra ásigkomulagi en fyrstu skoðanir gáfu til kynna. Nauðsynlegt var því að ráðast í umfangsmeiri múrviðgerðir en áætlað var og það kallar á frestun á opnun – nýr áætlaður opnunardagur er 15. júlí.
Kerið hefur verið málað reglulega á 3–4 ára fresti í yfir hálfa öld og hefur safnað á sig fjölmörgum málningarlögum. Byggt var yfir laugarkerið til að vinna að viðgerðinni og hreinsa burt gömul málningarlög, en nauðsynlegt var að hreinsa þau alveg burt til að tryggja vandaðar og varanlegar múrviðgerðir á kerinu.
Á meðan ekki er hægt að opna laugina vegna vinnu við laugarkerið, er tíminn nýttur sem best og unnið að framkvæmdum á öðrum stöðum húsnæðinu, svo sem í afgreiðslu, sánum auk þess er verið að setja upp nýtt neyðarkerfi. Stefnt er að því að hægt verði að ljúka sem flestum verkum í þessari lotu og forðast frekari truflanir vegna viðhalds síðar meir.
Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir allt kapp lagt á að klára viðgerðina í tæka tíð. „Við þökkum innilega fyrir skilning og þolinmæði. Við hlökkum til að taka á móti gestum þann 15. júlí í endurbættri og öflugri Vesturbæjarlaug – okkar sameiginlega fjársjóði,“ segir Anna Kristín.