Egils Þórs Jónssonar minnst við upphaf borgarstjórnarfundar í dag
Einar Þorsteinsson borgarstjóri minntist Egils Þórs Jónssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa við upphaf borgarstjórnarfundar í dag. Egill lést fimmtudaginn 20. desember síðastliðinn aðeins 34 ára að aldri eftir hetjulega baráttu við krabbamein.
Í minningaræðunni fór borgarstjóri yfir æviferil Egils og þakkaði honum fyrir sérlega góð kynni:
Egill fæddist í Reykjavík 26. júní 1990 og ólst upp í Breiðholti. Hann var félagsfræðingur að mennt og helgaði starfsferil sinn fólki með fatlanir og geðræn vandamál. Hann var stuðningsfulltrúi í búsetukjarna á vegum Reykjavíkurborgar og síðar teymisstjóri á velferðarsviði.
Hann sinnti félagsstörfum af krafti alla tíð, á háskólaárunum var hann formaður félags félagsfræðinema, sat í stúdentaráði, sat í stjórn stúdentaráðs og var formaður Vöku. Síðar sinnti hann formennsku í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, átti sæti í stjórn Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra, og var virkur í starfi Oddfellowreglunnar á Íslandi.
Egill Þór var tryggur sjálfstæðismaður alla tíð. Hann var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins árin 2018 til 2022 og varaborgarfulltrúi frá 2022. Hann sat í ýmsum nefndum og ráðum, t.a.m. umhverfis- og heilbrigðisráði, velferðarráði, skóla- og frístundaráði, ferlinefnd fatlaðs fólks og öldungaráði. Þá sat hann í íbúaráði Breiðholts og íbúaráði Kjalarness.
Eftirlifandi eiginkona Egils Þórs er Inga María Hlíðar Thorsteinson, fædd 1991, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Inga María er einnig fyrrum varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Börn þeirra eru Sigurdís, þriggja ára, og Aron Trausti, fimm ára.
Fyrir hönd borgarstjórnar vill borgarstjóri þakka Agli einstaklega góð kynni, gott samstarf og allt hans framlag í þágu betri borgar.
Ingu Maríu, börnum þeirra og öðrum aðstandendum vottum við innilega samúð.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins minntist einnig Egils Þórs:
Það er sannarlega auðvelt að standa hér í dag og týna til öll fegurstu orð í litrófi íslenskunnar til þess að lýsa vini okkar. Egill var góður samstarfsmaður, traustur vinur og einstakur mannasættir. Hann var falslaus og einlægur, réttsýnn og heiðarlegur.
Í trúnaðarstörfum sínum fyrir Sjálfstæðisflokkinn gat Egill sér alls staðar gott orð fyrir kurteisi og hlýja framkomu. Á vettvangi borgarstjórnar varði hann kröftum sínum helst í þágu þeirra sem höllum fæti standa. Það var hans erindi, þar lá hans ástríða og það lýsti honum best.
Hann mætti veikindum sínum af auðmýkt og æðruleysi en sýndi jafnframt einstakt baráttuþrek. Við ræddum saman fáeinum vikum fyrir fráfallið og þrátt fyrir langa og þunga sjúkrahússlegu mátti enn greina mikla bjartsýni og einstaka þrautseigju.
Fyrir hönd borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins sendi ég Ingu Maríu eiginkonu Egils Þórs, börnum þeirra og nánustu aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur. Minningin um góðan vin og traustan samstarfsfélaga um ávallt lifa.
Borgarfulltrúar risu úr sætum sínum og minntust Egils Þórs með einnar mínútu þögn.