Drög að borgarhönnunarstefnu í samráðsgátt
Drög að borgarhönnunarstefnu hafa nú verið sett í samráðsgátt borgarinnar. Meginmarkmið stefnunnar er að skapa mannvæna og sjálfbæra borg sem styrkir samfélag, endurspeglar menningararfinn og býður upp á fjölbreytt tækifæri fyrir alla íbúa. Með stefnunni er kallað eftir skýrri afstöðu í þróunarverkefnum framtíðarinnar, hún leggur grunn að skýrari ákvarðanatöku og innleiðingu sem styður við skipulag, umhverfismál og velferð borgarbúa.
Drög stefnunnar hafa verið kynnt og rýnd af viðkomandi starfsfólki umhverfis- og skipulagssviðs ásamt því að fá rýni frá eftirtöldum fagaðilum; Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Arkitektafélagi Íslands og Híbýlaauði. Nú er komið að almenningi og öðrum hagaðilum að koma athugasemdum sínum á framfæri. Stefnan hefur verið kynnt í umhverfis- og skipulagsráði en fer að lokinni kynningu í samráðsgátt til samþykktar ráðsins.
Heildstæð sýn til framtíðar
„Borgarhönnunarstefnan sem hér er kynnt setur fram mikilvæga og heildstæða sýn á þróun borgarinnar til framtíðar þar sem samfélag, sérstaða, skipulag, skilvirkni, staðargæði og hönnun mynda leiðarljós. Stefnan setur þarfir fólks í forgrunn og kallar eftir því að við mótum borg þar sem öll geta fundið sér stað – óháð aldri, uppruna, stöðu eða aðstæðum. Hún leggur áherslu á örugg, aðgengileg og aðlaðandi almenningsrými sem halda vel utan um fólk, þar sem það getur endurnærst, mæst, átt samskipti, ferðast á virkan hátt og notið hafsins, náttúrunnar og fjallasýnar í borgarlandslaginu,“ segir í stefnunni.
Mikilvægt vinnutæki
Í stefnunni kemur fram að Reykjavík eigi að vera borg sem byggi á fjölbreytni og virðingu fyrir sögunni en líka borg sem taki á móti nýjum hugmyndum og framtíðarlausnum. Stefnan sé mikilvæg öllum þeim sem vinni að skipulagi og hönnun borgarinnar, hvort sem þau séu lóðarhafar, uppbyggingaraðilar, hönnuðir eða starfsmenn borgarinnar. „Stefnan er einnig mikilvæg sem loforð til íbúa um þá þætti sem þarf að tryggja þeim við þróun borgarinnar á þeirra forsendum og fræðir um þau mikilvægu atriði sem þarf að huga að við hönnun og skipulag farsællar borgar,“ segir í stefnunni.
Huga betur að gæðum í uppbyggingu og þróun
„Það eru stór tímamót að kynna hér fyrstu borgarhönnunarstefnu Reykjavíkur. Stefnan er sett fram til að huga betur að gæðum í uppbyggingu og þróun borgarinnar. Innleiða stóra sýn aðalskipulagsins um grænt og manneskjuvænt umhverfi í hinu smáa sem skiptir svo ótrúlega miklu máli. Undanfarin ár höfum við lagt áherslu á að þétta byggðina og tryggja hagkvæma nýtingu lands í takti við alþjóðlegar áherslur um sjálfbæra borgarþróun. En það er ekki sama hvernig það er gert. Það verður að vera á forsendum íbúanna, hamingju þeirra og velferðar. Það verður að læra af því sem hefur heppnast vel en líka af því sem betur hefði mátt fara. Út á það gengur þessi stefna,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður stýrihóps um borgarhönnunarstefnu og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, í ávarpi sínu í inngangi borgarhönnunarstefnunnar.
Vagga íslensks borgarlífs
Í fyrsta kafla borgarhönnunarstefnunnar er lögð áhersla á að í Reykjavík sé vagga íslensks borgarlífs og að Reykjavík sé borg sem standi á grunni sögunnar en horfi um leið til framtíðar. „Hér fléttast saman menning, náttúra og saga í daglegu lífi borgarbúa sem við viljum varðveita og efla. Við viljum að Reykjavík sé borg fyrir okkur öll – lifandi, fjölbreytt og mannvæn borg með sterkt kennileiti og ríkt menningarlíf sem speglar sérstöðu hennar og eflir samkennd íbúa – borg þar sem rými milli bygginga, götur, torg og opin svæði eru vettvangur samveru, samskipta og samfélags,“ segir þar.
Fólk er hvatt til að kynna sér stefnuna í samráðsgáttinni en opið verður fyrir ábendingar og athugasemdir til og með 23. október.