Brunabangsinn Björnis kominn til starfa á Íslandi
Fyrsti vinnudagur brunabangsans Björnis (Bjössa) á Íslandi var í gær. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og stjórnarformaður Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hitti hann af því tilefni, fór með honum upp í körfubíl og sýndi honum höfuðborgina úr 40 metra hæð í blíðskaparveðri.
Björnis verkefnið hófst í Þrándheimi í Noregi og hefur síðan breiðst um allan Noreg. Verkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að fræðsla um eldvarnir fyrir börn sé einn af grunnstólpum eldvarnafræðslu, bæði vegna þess að börn öðlast grunnþekkingu í eldvörnum sem þau búa að alla ævi og þar sem börn eru góðir sendiherrar þegar kemur að því að fræða foreldra, ömmur og afa um eldvarnir.
Vel fór á með Björnis og Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarstjóra og stjórnarformanni Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Bækur, sjónvarpsþættir, skemmtanir og leikrit
Mikill metnaður hefur verið lagður í verkefnið, en komnar eru út bækur um Björnis, gerðir hafa verið sjónvarpsþættir sem meðal annars eru sýndir á RÚV, haldnar eru skemmtanir í kringum Björnis í Noregi, auk þess sem jólaleikrit er sett upp í leikhúsum ár hvert. Þá er Björnis virkur á samfélagsmiðlum í Noregi og nær þannig til breiðari aldurshóps, meðal annars með stuttum myndböndum á TikTok. Hægt er að fara á heimasíðu Björnis fyrir ítarlegri upplýsingar.
"...börn öðlast grunnþekkingu í eldvörnum sem þau búa að alla ævi og börn eru góðir sendiherrar þegar kemur að því að fræða foreldra, ömmur og afa um eldvarnir."
Nafnið Björnis: Þegar viðræður hófust við Norðmenn um að fá Björnis til Íslands kom fljótlega í ljós að Norðmönnum þykir verulega vænt um þetta mikilvæga verkefni og nafnið Björnis. Þegar í ljós kom að þegar væri búið að þýða fyrstu seríuna af Björnis yfir á íslensku og að í þýðingunni hefði nafninu verið breytt í Bjössa brunabangsa var ákveðið að halda Björnis nafninu en að kalla mætti bangsann Bjössa.
Björnis er ekki lofthræddur og það viðraði vel fyrir útsýnisferð í gær.
Kærleiksríkur huggunarbangsi
Auk þess að nýtast við fræðslu þá er Björnis er notaður sem verkfæri þegar slökkvilið hittir börn í tengslum við eldsvoða og önnur slys þar sem dælubíll kemur að, og er þá svokallaður huggunarbangsi. Ekki er komin tímasetning á hvenær þessi hluti verkefnisins verður innleiddur en líklega verður það á komandi mánuðum.
Við fögnum komu Björnis til Íslands og bjóðum hann velkominn til starfa.
Við erum þakklát fyrir okkar frábæru viðbragðsaðila og Björnis er kærkomin viðbót.