Breytt stilling umferðarljósa á Bústaðavegi

Stillingar á umferðaljósum á Bústaðavegi verða uppfærðar.
Umferðarljós

Endurskoðun umferðarljósastillinga er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins en markmið verkefnisins er að auka öryggi og skilvirkni umferðarljósa í borginni. Ráðgjafar voru fengnir til að skoða núverandi stillingar umferðarljósa í Reykjavík og uppfæra þær miðað við nýjar umferðatalningar. 

Niðurstöður ráðgjafa liggja nú fyrir Bústaðaveg austan Kringlumýrarbrautar og því komið að því að virkja nýjar stillingar umferðarljósanna. Helstu breytingarnar eru þær að vegna samstillingar við nærliggjandi gatnamót, höfðu hliðargötur og gönguþveranir yfir Bústaðaveg aðeins ákveðinn tímaramma til að fá grænt ljós. Með nýrri stillingu umferðarljósa, verður þessi tímarammi í raun aflagður, þannig að hliðargötur og gönguþveranir geta fengið grænt hvenær sem er. Samkvæmt niðurstöðum ráðgjafa er búist við að meðaltafir muni styttast um 1-8 sekúndur á hvert ökutæki, á öllum gatnamótum á annatímum árdegis og síðdegis.

Nýjar umferðarljósastillingar verða virkjaðar klukkan 10:00 miðvikudaginn 12. mars.