
Umferðarljósabúnaður verður endurnýjaður á fimm gatnamótum á Höfðabakka í sumar. Samhliða verður hámarkshraði á Höfðabakka lækkaður í 50 km/klst. og ýmsar lagfæringar gerðar til að bæta aðgengi allra vegfarenda og öryggi.
Borgarráð hefur nú heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna þessa. Um er að ræða samvinnuverkefni með Vegagerðinni.
Gatnamótin sem um ræðir eru eftirtalin:
- Höfðabakki – Stórhöfði
- Höfðabakki – Dvergshöfði
- Höfðabakki – Bíldshöfði
- Höfðabakki – Vesturlandsvegur
- Höfðabakki – Bæjarháls
Núverandi umferðarljós á Höfðabakka eru komin til ára sinna. Endurnýjaður búnaður mun bjóða upp á rauntímastýringu umferðarljósanna þar sem nýrri tegund radarskynjara verður komið fyrir þannig að unnt er að ákvarða stýringu út frá umferðarflæði á hverjum tíma.
Aukið umferðaröryggi
Markmiðið er að bæta umferðaröryggi óvarinna vegfarenda, meðal annars með því að stytta leið þeirra yfir götu en einnig er markmiðið að bæta skilvirkni gatnamótanna fyrir alla vegfarendur með bættri ljósastýringu, og þar með umferðarflæði.
Samhliða endurnýjun á búnaði eru ljósastýringar yfirfarnar og lagfæringar gerðar á nánasta umhverfi, sérstaklega með tilliti til aðgengis og öryggis óvarinna vegfarenda. Lagfæringar á umhverfi eru almennt séð minniháttar, til dæmis lagfæringar á kantsteinum, breikkun miðeyja, gerð upphækkana, leiðarlína og varúðarsvæðis. Götulýsing verður bætt og hnappabox með hljóðgjafa fyrir sjónskerta sett við allar gönguþveranir.
Hægribeygjuframhjáhlaup fjarlægð við Bæjarháls
Umfangsmeiri breytingar eru áætlaðar á gatnamótum Höfðabakka við Bíldshöfða, við Vesturlandsveg og við Bæjarháls.
Við Bíldshöfða verða sett umferðarljós á hægribeygjuframhjáhlaup frá Bíldshöfða suður Höfðabakka. Þar er nokkur samþjöppun umferðarslysa sem rekja má til þess að umferð frá Bíldshöfða er að skjóta sér inn í nokkuð hraða og þétta umferð á Höfðabakka og athyglin þá ekki alltaf á ökutækinu fyrir framan eða á umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.
Við Vesturlandsveg verða bognir staurar með umferðarljósum fjarlægðir vegna slæms aðgengis og slysahættu fyrir tæknifólk. Þess í stað verður umferðaljósum bætt við á miðeyju.
Við Bæjarháls verða tvenn hægribeygjuframhjáhlaup fjarlægð til að bæta aðgengi og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á gatnamótunum. Annars vegar á Höfðabakka til suðurs inn á Streng og hins vegar á Bæjarhálsi til hægri inn á Höfðabakka. Þarna er í dag töluverð umferð gangandi og hjólandi vegfarenda en til viðbótar er gert ráð fyrir stofnstíg fyrir hjólandi meðfram Höfðabakka að austanverðu í framtíðinni. Í dag er töluvert um aftanákeyrslur á hægribeygjuframhjáhlaupinu frá Bæjarhálsi, þar sem ökumenn eru með athyglina á hraðri umferð á Höfðabakka en ekki á ökutækinu fyrir framan eða umferð gangandi og hjólandi vegfarenda. Eftir breytingar verður sér akrein fyrir þá umferð með sérstöku hægribeygjuljósi. Þrátt fyrir þetta er áætlað að afköst gatnamótanna í heild og þar með þjónustustig þeirra sé áþekkt núverandi ástandi.
Áætlað er að framkvæmdir við endurnýjun umferðarljósabúnaðar hefjist nú í vor og ljúki í haust. Áætlaður heildarkostnaður er um 250 milljónir króna. Reykjavíkurborg greiðir um einn þriðja af þeirri upphæð og Vegagerðin um tvo þriðju.