Börnum á biðlista fyrir Klettaskóla boðin önnur sérhæfð skólavist

Allt að átta reykvískum börnum sem uppfylla skilyrði til inngöngu en komast ekki að í Klettaskóla í haust verður tryggð skólavist í Húsaskóla.
Klettaskóli getur aðeins tekið við 14 nemendum skólaárið 2025–2026, en alls bárust 53 umsóknir og uppfyllti 41 barn skilyrði fyrir skólavist. Þetta er í samræmi við þróun síðustu ára þar sem eftirspurn eftir skólavist í Klettaskóla hefur farið langt fram úr því sem skólinn ræður við.
Til að bregðast við þessari stöðu hefur Reykjavíkurborg ákveðið að bjóða allt að átta nemendum með lögheimili í Reykjavík, sem ekki komast að í Klettaskóla, skólavist í Húsaskóla. Þá hefur nokkrum börnum verið boðin skólavist í Arnarskóla og í sérdeildum þar sem þörfum þeirra verður mætt.
Inngilding eitt af meginmarkmiðum
Í einingunni í Húsaskóla munu börnin fá aðgang að sérhæfðu námi, kennslu og frístundastarfi í samstarfi við frístundaheimilið Kastala. Klettaskóli mun veita Húsaskóla og Kastala ráðgjöf og stuðning til að tryggja gæði þjónustunnar. Inngilding verður eitt af meginmarkmiðum verkefnisins sem miðar að því að byggja brú milli fatlaðra og ófatlaðra. Auglýst hefur verið eftir deildarstjóra til að stýra einingunni sem verður hluti af almennu skólastarfi en með mjög góða aðstöðu til að veita fötluðum þjálfun og kennslu í samræmi við stuðningsþarfir.
Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, hefur átt samtöl við sviðsstjóra fræðslumála nágrannasveitarfélaga um lausnir líkt og Reykjavík hyggst gera fyrir reykvíska nemendur. „Við höfum unnið markvisst að því að finna lausnir til að mæta stuðningsþörfum fatlaðra barna og þessi leið er mikilvægur liður í því,“ segir Steinn.
Greining á uppbyggingu nýs sérskóla hafin
Hafin er greining á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um framtíðaruppbyggingu sérskóla á svæðinu. Stefnt er að því að niðurstöður greiningarinnar liggi fyrir í haust og að undirbúningur að stofnun nýs sérskóla geti hafist sem fyrst. Ljóst er að þörfin fyrir sérúrræði mun aukast á næstu árum og áratugum og mikilvægt að inniviðauppbygging taki mið af því.
Þjálfun og kennsla í samræmi við stuðningsþarfir
Margar umsóknir bárust í þau 17 pláss sem eru til ráðstöfunar í sérdeildum fyrir einhverf börn eða 47 alls og af þeim uppfylla 45 skilyrði fyrir innritun. Af þeim sem ekki fá pláss í sérdeild eru vissulega nemendur með flóknar stuðningsþarfir og mun skóla- og frístundasvið ásamt skólaþjónustu í hverfunum undirbúa móttöku og nám þeirra nemenda í þeirra heimaskólum eða þar sem foreldrar óska. Metnaður verður lagður í góða aðstöðu og að veita þeim þjálfun og kennslu í samræmi við þeirra stuðningsþarfir.