Borgarstjóri tók þátt í friðarráðstefnu í París
Heiða Björg Hilmisdóttur borgarstjóri tók nýlega þátt í umræðu á sérstakri friðarhátíð sem var skipulögð af Parísarborg og frönsku samtökunum Les Guerrières de la Paix, sem hafa verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels í ár. Þá tók hún einnig þátt í Urban Days ráðstefnunni í sömu borg þar sem 150 alþjóðlegir leiðtogar og sérfræðingar ræddu leiðir til að móta, skapa og breyta borgum til að tryggja sjálfbærni þeirra til framtíðar.
Friðarráðstefna
Friðarsinnum frá Ísrael og Palestínu, ásamt borgarstjórum frá öllum heimshornum var stefnt saman til að fjalla um þær áskoranir sem Miðausturlönd standa frammi fyrir og hvernig borgir geta haft aðkomu og lagt sitt að mörkum til að endurreisa frið á þessum svæðum. Að sögn Heiðu opnaði Anne Hidalgo borgarstjóri Parísarborgar viðburðinn með áhrifaríku erindi sem setti tóninn fyrir mikilvægar umræður. Heiða tók þátt í umræðu á ráðstefnunni sem sneri að hlutverki borga í friðarviðleitunum og að viðhalda friði í heiminum. Hún ræddi þar meðal annars um friðarmenntun í reykvískum skólum, íbúalýðræði, og hvernig Reykjavíkurborg stendur með nauðsynlegum rétti til tjáningar. Þó að Reykjavík sé ekki stór borg á heimsmælikvarða þá ber hún ábyrgð og tekur því hlutverki alvarlega.
Urban Days á vegum OECD
Í sömu ferð til Parísar tók Heiða þátt í „ skemmtilegu og mikilvægu samtali” á Urban Days ráðstefnunni á vegum Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Þar fór fram gagnleg umræða um framtíðarskipulag borga og hvernig hægt er að stuðla að því að allir íbúar fái tækifæri til að lifa heilbrigðu og góðu lífi. Á ráðstefnunni voru nýjustu gögn frá OECD rýnd þar sem kynntar voru athyglisverðar nýjar hugmyndir í framþróun borga, hvernig takast megi á við húsnæðisvanda, verndun og vöndun notkun auðlinda, hvernig hægt er að hanna fyrir betri veðurskilyrði og mikilvægi þess að móta skýra framtíðarsýn. „ Allt þetta er góð hvatning til að halda áfram að byggja Reykjavíkurborg fyrir fólk, þá sér í lagi ef við getum haft áhrif á veðrið,“ segir Heiða Björg.
Fundur með borgarstjóra Parísar
Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar bauð Heiðu Björgu á sérstakan einkafund í Hôtel de Ville, ráðhúsi Parísar í tengslum við friðaráðstefnuna sem haldin var sama dag. Þær áttu mjög gott samtal um skipulag borga og hlutverk þeirra í að stuðla að friði í heiminum.