Borgarhönnunarstefna Reykjavíkur til samþykktar

Mannlíf á Óðinstorgi. Meginmarkmið stefnunnar er að skapa mannvæna og sjálfbæra borg.
Mannlíf á Óðinstorgi.

Ný borgarhönnunarstefna Reykjavíkur var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun, sem er fyrsta skrefið að endanlegri samþykkt hennar. Meginmarkmið stefnunnar er að skapa mannvæna og sjálfbæra borg sem styrkir samfélag, endurspeglar menningararfinn og býður upp á fjölbreytt tækifæri fyrir alla íbúa. Með stefnunni er kallað eftir skýrri afstöðu í þróunarverkefnum framtíðarinnar, hún leggur grunn að skýrari ákvarðanatöku og innleiðingu sem styður við skipulag, umhverfismál og velferð borgarbúa. 

Til umræðu í borgarstjórn

Stefnan verður kynnt í borgarráði á morgun fimmtudaginn 13. nóvember og fer síðan til umræðu í borgarstjórn næstkomandi þriðjudag en allar stefnumarkandi ákvarðanir fara tvisvar sinnum fyrir borgarstjórn. Drög stefnunnar voru kynnt í umhverfis- og skipulagsráði, borgarráði og rædd í borgarstjórn í síðasta mánuði.

Vinna stýrihóps hófst fyrir tæpum tveimur árum en í stýrihóp störfuðu Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður, Líf Magneudóttir, Hjálmar Sveinsson, Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Kjartan Magnússon.

Búin að fara í samráðsgátt

Búið er að kynna stefnuna í samráðsgátt borgarinnar. Drög stefnunnar höfðu fyrir það verið kynnt og rýnd af viðkomandi starfsfólki umhverfis- og skipulagssviðs ásamt því að fá rýni frá eftirtöldum fagaðilum; Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Arkitektafélagi Íslands og Híbýlaauði.

Tíu álit bárust í samráðsgátt Reykjavíkur þegar stefnan var þar til kynningar í október. Öryrkjabandalag Íslands, Vegagerðin, Skipulagsstofnun, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Samgöngur fyrir alla, stjórn Landssamtök hjólreiðamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Hjólreiðabændur, Grænni byggð, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og félags- og húsnæðismálaráðuneytið fengu sérstaklega sent hnipp um að stefnan væri komin í samráðsgátt. Álit bárust frá tveimur af þessum ellefu aðilum, Vegagerðinni og Öryrkjabandalagi Íslands.

Stefnunni fagnað í álitum

Mörg álit áttu ekki við stefnuna sjálfa og voru vegna annarra skipulags- og umhverfisverkefna Reykjavíkur. Álit um ofurþéttingu og annað tengt uppbyggingu er nú þegar unnið með í stefnunni. Málefnaleg álit bárust meðal annars frá Öryrkjabandalagi Íslands og Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Stýrihópur tók afstöðu til álita og þó mörg álita væru nú þegar ávörpuð í stefnunni, vantaði kannski meiri skýrleika. Reyndist auðvelt að skerpa á nokkru atriðum, án þess að um neinar stórar efnislegar breytingar væri að ræða.

Við úrvinnslu álita kom í ljós að stefnunni er í öllum tilfellum fagnað og hún talin metnaðarfull og jákvæð með sérstaka áherslu á sjálfbærni og mannvænt borgarumhverfi. Í einhverjum tilfellum er óskað eftir að lögð verði áhersla á mælanlega framkvæmd og ábyrgð á innleiðingu stefnunnar sem verður gert við innleiðingu hennar.

Teikning af götumynd með útskýringum

Innleiðing stefnunnar

  • Unnið er að gátlista sem dregur upp öll mælanleg markmið stefnunnar.
  • Gátlisti verður með matskvarða, þannig að hvert mælanlegt markmið fái ákveðið vægi við skipulagsgerð.
  • Kynning verður á notkun stefnunnar fyrir skipulagsgerð og hún innleidd og prófuð við þá vinnu.
  • Við næstu uppfærslu Aðalskipulags Reykjavíkur verði Borgarhönnunarstefnan innleidd sem ein af megin grundvallarstefnum Aðalskipulagsins.

Fyrir hver er stefnan?

Stefnan er fyrir öll þau sem vinna að skipulagi og hönnun borgarinnar, hvort sem það eru lóðarhafar, uppbyggingaraðilar, hönnuðir eða starfsmenn borgarinnar. Stefnan er einnig mikilvæg sem loforð til íbúa um þá þætti sem þarf að tryggja þeim við þróun borgarinnar á þeirra forsendum og fræðir um þau mikilvægu atriði sem þarf að huga að við hönnun og skipulag farsællar borgar.

Stefnan er líka fræðilegt rit fyrir öll sem hafa áhuga á borgarhönnun og skipulagi borga og bæja og hvernig við getum hugað að umhverfislegum þáttum út frá manneskjunni og hennar þörfum. Manneskjan er í forgrunni, það er hún sem skapar samfélagið og okkar að hlúa að því. Stefnan styður einnig við umhverfislega, samfélagslega, félagslega og efnahagslega sjálfbærni borgarinnar.

Borgarhönnunarstefna Reykjavíkur