Borgarhátíðir í Reykjavík 2026-2028
Hinsegin dagar í Reykjavík fær fastan samning við borgina. Iceland Airwaves og HönnunarMars verða varanlegar borgarhátíðir.
Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkurborgar auglýsir á þriggja ára fresti eftir umsóknum frá forsvarsfólki hátíða sem vilja verða Borgarhátíðir Reykjavíkur.
Borgarhátíðir Reykjavíkur 2026–2028
Að þessu sinni bárust umsóknir frá tuttugu fjölbreyttum og metnaðarfullum lista og menningarhátíðum sem faghópur skipaður sérfræðingum í menningarmálum fór yfir og mat eftir faglegum viðmiðum, meðal annars um listrænt gildi, sýnileika, aðgengi, atvinnusköpun og samfélagsleg gildi. Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkurborgar hefur valið sex hátíðir til að vera borgarhátíðir Reykjavíkur fyrir árin 2026–2028 og byggir ráðið ákvörðun sína á tillögum faghóps.
Ákvarðanirnar endurspegla bæði fjölbreytni menningarlífs borgarinnar og mikilvægi einstakra listahátíða sem hafa sýnt fram á sterkt listrænt gildi, alþjóðlega tengingu og jákvæð áhrif á borgarlífið.
Iceland Airwaves og HönnunarMars verða varanlegar borgarhátíðir. Með því er tryggt að tvær af mikilvægustu menningarhátíðum borgarinnar, sem styrkja bæði ímynd Reykjavíkur og atvinnulíf, verði hluti af borgarmenningu til framtíðar. Þessar hátíðir hafa sannað sig sem lykilstoðir í menningarlífi Reykjavíkur
- Iceland Airwaves – hefur í 25 ár verið burðarás í tónlistarlífi borgarinnar, eflt íslenska tónlist út fyrir landsteinana og skapað einstakt andrúmsloft sem laðar gesti víðsvegar að úr heiminum.
- HönnunarMars – hefur sett Reykjavík á heimskortið sem skapandi og framsækna borg, þar sem fjölbreyttar greinar hönnunar og arkitektúrs sameinast í öflugri og faglegri hátíð sem nærir bæði atvinnulíf og samfélag.
Nýjar og endurnýjaðar borgarhátíðir
Auk þeirra var ákveðið að styrkja eftirfarandi hátíðir sem borgarhátíðir 2026–2028:
- Reykjavík Dance Festival – mikilvægur vettvangur fyrir íslenska danslist sem leggur áherslu á inngildingu og samfélagslega ábyrgð.
- Myrkir Músíkdagar – framsækin tónlistarhátíð sem styrkir stöðu íslenskra tónskálda og eykur fjölbreytni í menningardagatali borgarinnar.
- Iceland Noir – Reykjavík – alþjóðleg bókmenntahátíð með áherslu á glæpasagnalist og nýsköpun í sagnalist.
Sérstaða Hinsegin Daga
Hinsegin dagar í Reykjavík hefur verið borgarhátíð frá árinu 2017, og verið styrkt af borginni mun lengur, en fær nú fastan samning við borgina, þar sem hátíðin er einstök að því leyti að hún sameinar menningu, mannréttindi og sýnileika fjölbreytileika borgarbúa. Hinsegin dagar í Reykjavík er ómetanleg fyrir ímynd og samfélagslega samstöðu í borginni. Ásamt Menningarnótt er hátíðin einn af hápunktum sumarsins og skemmtilegir viðburðir sem lita mannlífið í borginni.
Val á borgarhátíðum að þessu sinni undirstrikar mikilvægi þess að tryggja bæði stöðugleika og nýsköpun í hátíðaflóru borgarinnar.
Nánar um borgarhátíðasjóð