Bætt aðgengi fyrir blind og sjónskert í Ráðhúsi Reykjavíkur

NaviLens kóði á vegg við mötuneytið í Ráðhúsi Reykjavíkur
NaviLens kóði á vegg við mötuneytið í Ráðhúsi Reykjavíkur

Reykjavíkurborg hefur tekið í notkun NavilLens upplýsingakóða í Ráðhúsi Reykjavíkur. Kóðinn tryggir blindum og sjónskertum aðgang að upplýsingum um þjónustu og aðstöðu í húsinu.

NaviLens svipar til svokallaðra QR-kóða og auðveldar aðgengi blindra og sjónskertra einstaklinga að upplýsingum svo þau geti áttað sig betur á umhverfi sínu. Lausnin nýtist á margvíslegan hátt, gagnast öllum og virkar á yfir 33 tungumálum.

Navilens í Ráðhúsi Reykjavíkur

Búið er að setja upp NaviLens kóðana í Ráðhúsinu og með sérstöku appi má lesa kóðana sem veita hljóðupplýsingar um hvaða þjónusta er á tilteknum stöðum í húsinu. 

NaviLens kóði á vegg við mötuneytið í Ráðhúsi Reykjavíkur
NaviLens kóðinn er marglitur og auðlesanlegur með appi.

Kóðarnir eru staðsettir ofarlega á vegg og með appinu fást upplýsingar um hvar móttaka ráðhússins er, salerni, borgarstjórnarsalur og fleira.

NaviLens kóðarnir eru marglitir sem gerir þá auðlesanlega úr mikilli fjarlægð og frá víðu sjónarhorni. Þetta gerir að verkum að notendur geta skannað kóðana án þess að þurfa að afmarka þá nákvæmlega, líkt og QR kóða, eða hafa fulla sjón. Notandinn einfaldlega beinir myndavélinni að kóðanum og fær upplýsingar í rauntíma með hljóðleiðsagnarkerfi. 

Þetta er mikilvægt aðgengismál fyrir blind og sjónskert sem bætir aðgengi allra að upplýsingum í umhverfinu. 

Strætó er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa tekið NaviLens kerfið í notkun til að bæta aðgengi og þjónustu fyrir blint og sjónskert fólk.

Innan tíðar verða kóðarnir einnig settir upp í Borgartúni 12 – 14.