Auglýst eftir aðila til að reka parísarhjól á Miðbakka í sumar

Parísarhjólið á Miðbakka

Auglýst verður eftir áhugasömum aðila til að reka parísarhjól á Miðbakka í sumar. Reynsla af samskonar verkefni síðasta sumar var góð og á verkefnið rætur í hugmyndavinnu um haftengda upplifun og útivist.

Parísarhjól var sett upp á Miðbakka í fyrra, sumarið 2024 og var þá um tilraunaverkefni til eins sumars að ræða. Verkefnið gekk vel og hefur nú verið ákveðið að auglýsa eftir aðila til að reka parísarhjól á Miðbakka sumarið 2025. Ef viðunandi tilboð berst verður gerður samningur við Faxaflóahafnir sf. um afnot af svæði á Miðbakka, með möguleika á framlengingu til eins árs vegna sumarsins 2026. Komi til samnings við rekstraraðila um rekstur parísarhjóls á Miðbakka verður hann lagður fyrir borgarráð.

Áhyggjur af hávaða reyndust óþarfar

Parísarhjól er hugsað sem spennandi viðbót við fjölbreytt borgarlíf og skemmtilegt framhald á mikilli uppbyggingu í miðborginni. Mikill áhugi var á verkefninu í fyrra og var þá gengið til samninga við Taylor‘s Tivoli Iceland ehf, sem hafði reynslu af rekstri parísarhjóla og af rekstri tívolís á Miðbakka. Gengið var úr skugga um að búnaðurinn þyldi íslenskar aðstæður, þar með talið vindálag og jarðhræringar. Áhersla var lögð á góða hljóðvist í kringum parísarhjólið og reyndust áhyggjur af hávaða óþarfar, svo lítið heyrðist í parísarhjólinu að það mældist ekki í mælingum vegna umferðar á Geirsgötu.

Áhugi á rekstri parísarhjóls reyndist meiri en búist var við og ljóst er að væri um langtímaverkefni að ræða, með fyrirsjáanleika til að geta farið í fjárfestingar, væru áhugasamir aðilar til staðar. Taylor‘s Tivoli greiddu þrjár milljónir króna auk virðisaukaskatts fyrir leigu á lóðinni á Miðbakka í fyrra og skilaði verkefnið gróða fyrir borgina. Helsti kostnaður Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins var að færa hjólabrettaramp á Klambratún og borga verkfræðiráðgjöf til að meta öryggisatriði tengd parísarhjólinu.

Ein margra hugmynda um haftengda upplifun

Verkefnið á rætur í hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun og útivist, en settar voru fram fjölmargar hugmyndir um hvernig bæta mætti lífsgæði borgarbúa og lýðheilsu í skýrslu sem kom út síðasta haust. Kostir grænna svæða eru vel þekktir og hefur verið sýnt fram á að aðgengi að grænum svæðum bæti velferð fólks. Vaxandi umræða er um kosti þess að hafa aðgengi að vatni, eða bláum svæðum; það er hafi, ám, fossum eða vötnum. Búseta í nálægð við vatn hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu og stuðlar að bættri hamingju og vellíðan og í Evrópu hafa blá svæði í auknum mæli verið viðurkennd sem aðlaðandi eiginleiki borga með tilliti til ferðaþjónustu, afþreyingar og heilbrigðs lífsstíls. Því var farið í greiningu á möguleikum til upplifunar og útivistar á strandlengjunni í Reykjavík og var parísarhjól ein fjölmargra hugmynda sem lesa má um í skýrslunni.