
Byggingaráform fyrir 1289 nýjar íbúðir í Reykjavík voru samþykkt árið 2024 og voru flestar íbúðirnar í fjölbýlishúsum eða 99%. Heildar byggingarmagn var um 231 þúsund fermetrar og var hlutdeild íbúðarhúsnæðis um 190 þúsund fermetrar eða 82% af heild, sem er töluverð aukning frá árinu á undan. Þetta kemur fram í ársskýrslu byggingarfulltrúa sem var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í morgun.
Frá árinu 2000 hefur samþykkt byggingarmagn á ári verið að meðaltali um 207 þúsund fermetrar. Mesta byggingarmagn var samþykkt árið 2018 eða um 396 þúsund fermetra en einungis 18 þúsund fermetrar árið 2010.
Tæplega þúsund íbúðir teknar í notkun
Árið 2024 hófst bygging á 935 íbúðum í nýbyggingum sem er nokkuð í samræmi við fjölda íbúða í nýbyggingum síðastliðin 10 ár og töluvert yfir meðaltali frá árinu 1972 sem er 673 íbúðir að meðaltali á ári.
Í Fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 989 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun á árinu 2024. Nýtt byggingarmagn fullgert og tekið i notkun á árinu var samtals 169.705 fermetrar og 656.705 rúmmetrar fyrir allt húsnæði.
Helstu tölur
- Samþykkt byggingaráform fyrir 1.289 nýjar íbúðir í Reykjavík.
- 99% í fjölbýlishúsum.
- Hafin bygging á 935 íbúðum.
- 989 nýjar íbúðir skráðar fullgerðar og teknar í notkun.
- 2.431 dagskrárliðir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa.
- 675 samþykkt mál.
- 1,73 málum frestað á milli funda.
- 25 málum synjað.
Mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík hefur verið síðastliðin 10 ár með samtals 9.811 íbúðum frá 2015. Flestar voru þær árið 2018 þegar bygging hófst á 1.417 nýjum íbúðum.
