Alvarleg ofbeldismál sem Barnavernd vísar til lögreglu leiða sjaldan til ákæru

Fá mál sem Barnavernd Reykjavíkur vísar til lögreglu, þar sem grunur leikur á alvarlegu ofbeldi gegn barni, leiða til ákæru. Þetta sýnir meistararannsókn Elísabetar Gunnarsdóttur, reynslumikils félagsráðgjafa og deildarstjóra hjá Barnavernd Reykjavíkur. Róbert Reynisson
Nærmynd af Elísabetur Gunnarsdóttur félagsráðgjafa og starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur.

Fá mál sem Barnavernd Reykjavíkur vísar til lögreglu, þar sem grunur leikur á alvarlegu ofbeldi gegn barni, leiða til ákæru. Þetta sýnir meistararannsókn Elísabetar Gunnarsdóttur, reynslumikils félagsráðgjafa og deildarstjóra hjá Barnavernd Reykjavíkur. 

Elísabet hefur starfað í Barnavernd Reykjavíkur í átján ár. Hún hóf þar störf sem nemi í fósturteymi Barnaverndar, þar sem hún vann til ársins 2020 þegar hún var ráðin deildarstjóri í nýju könnunar- og meðferðarteymi með áherslu á börn af erlendum uppruna og heimilisofbeldismál. Innsýn Elísabetar og reynsla urðu til þess að hún ákvað að greina mál úr málaskrá Barnaverndar Reykjavíkur til að kanna afdrif þeirra mála þar sem grunur leikur á alvarlegu ofbeldi gegn barni og Barnavernd Reykjavíkur hefur vísað til rannsóknar lögreglu. Rannsóknin var lokaverkefni hennar í meistaranámi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. 

Ekki léttvæg ákvörðun að vísa málum til rannsóknar lögreglu

Til skoðunar voru öll þau mál þar sem grunur lék á að börn hefðu orðið fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi af hálfu foreldra sinna á árunum 2015 til 2023. Á því tímabili hafði tilkynningum til Barnaverndar um ofbeldi gegn börnum fjölgað mjög. Þær voru 214 árið 2015 en 358 árið 2023. 

Fjöldi tilkynninga sem bárust Barnavernd Reykjavíkur á árunum 2015–2023:

Tafla sem sýnir fjölda tilkynninga sem bárust Barnavernd á árunum 2015–2013

Málin sem Elísabet skoðaði voru 113 talsins. Það má því sjá að einungis lítill hluti mála sem tilkynnt er til Barnaverndar er að lokum vísað til lögreglu. Ákvörðun um að vísa málum til lögreglu byggir á lögum, reglugerðum og ákveðnu verklagi sem Barna- og fjölskyldustofa gefur út. Þrátt fyrir það er ákvörðunin líka háð mati starfsfólks Barnaverndar, sem Elísabet segir geta verið flókið. „Við tökum allar ákvarðanir í teymi, það stendur enginn einn að ákvörðunum hjá okkur. En það getur samt oft verið snúið fyrir okkur að leggja mat á þessi mál, því það getur haft slæm áhrif á samvinnu okkar við foreldri ef við vísum máli þess til lögreglu, á sama tíma og við erum að vinna út frá meðferðaráætlun og leggja til ákveðin úrræði. Við þurfum alltaf að meta hvort það séu hagsmunir barns að mál þeirra fari þá leið, eða hvort það eru það frekar hagsmunir þess að nýta samstarfsvilja foreldra þeirra til að bæta aðstæður sem barnið býr við.“

„Við tökum allar ákvarðanir í teymi, það stendur enginn einn að ákvörðunum hjá okkur.“ 

Rannsóknina Elísabetar í heild má skoða á Skemmunni.

Flest barnanna af erlendum uppruna

Í meirihluta málanna sem vísað er til lögreglu, eða í 67% þeirra, er um börn af erlendum uppruna að ræða. Það telur Elísabet helst eiga sér tvær skýringar. „Rannsóknir sýna að það að vera flóttamaður eða innflytjandi er áhættuþáttur fyrir ofbeldi. Þetta undirstrikar hvað það er mikilvægt að hlúa vel að fólki sem er að flytja hingað til lands, jafnvel úr erfiðum aðstæðum, því það er oft undir miklu álagi. Menningarmunur og mismunandi viðhorf til refsinga gagnvart börnum og ofbeldis spila líka inní. Menning réttlætir að sjálfsögðu ekki að barn verði fyrir ofbeldi en við verðum að taka þetta með inn í reikninginn. Okkar hlutverk er að leiðbeina fólki, vísa því áfram veginn, leiðbeina því um hvar það getur fengið aðstoð í uppeldishlutverkinu. Stundum þurfum við að upplýsa fólk um að hér á landi sé ólöglegt að beita börn ofbeldi í uppeldisskyni. Við hittum fólk sem veit það ekki.“

Elísabet tekur fram að langflest mál hjá Barnavernd séu unnin í góðri samvinnu við foreldra, þvert á það sem margir halda. „Þegar við erum að leggja þetta til er vandinn oft orðinn svo mikill að í flestum tilvikum eru foreldrar sammála okkur. Við erum málsvarar barnanna og erum með þeirra réttindi og hagsmuni efst í huga og margir foreldrar vita það.“  

Vonar að ofbeldismál gegn börnum fái meiri forgang

Niðurstöður rannsóknar Elísabetar sýna að það er gefin út ákæra í mjög fáum málum, eða einungis í 19% málanna. Tíu foreldrar af 89 grunuðum hlutu dóma en gefin var út ákæra gegn 11 foreldrum. „Þetta lága hlutfall gefur að vissu leyti til kynna að það sé betra að við reynum allt sem við getum, áður en við vísum málum til lögreglu,“ segir Elísabet.

Elísabet segist finna fyrir miklum áhuga innan lögreglunnar á niðurstöðum rannsóknarinnar. Hún var í miklu samstarfi við lögregluna við gerð hennar, þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um afdrif allra málanna í málaskrá Barnaverndar. 

Súlurit yfir skýrslutökur af börnum.

„Ég vona að þessi rannsókn stuðli að því að fleiri mál verði litin alvarlegum augum hjá lögreglu, eftir að það liggur fyrir mat okkar hjá Barnavernd. Það er full ástæða til, því þetta eru allra alvarlegustu málin sem við fáum inn á okkar borð.“