Alþjóðlegur minningardagur trans fólks
Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur minningardagur trans fólks. Af þessu tilefni er trans fánum flaggað við Ráðhús Reykjavíkur.
Dagurinn er til að minnast trans fólks sem hefur verið myrt eða tekið eigið líf. Minningardagur trans fólks var upphaflega haldinn í lok nóvember 1999 af hálfu Gwendolyn Ann Smith til að heiðra minningu Ritu Hester, vinkonu hennar og trans konu sem var myrt í Boston í nóvember árið 1998. Dagurinn er haldinn árlega um allan heim þann 20. nóvember, á dánardegi trans konunnar Chanelle Pickett sem var myrt í Boston árið 1995.
Í ár er minnst 281 trans einstaklinga sem myrt hafa verið frá 1. október 2024 til 30. september 2025. 90% þeirra voru trans konur eða manneskjur með kvenlæga kyntjáningu samkvæmt tölum Transgender Europe (TGEU), regnhlífasamtaka trans samtaka í Evrópu og Mið-Asíu. Þess ber að nefna að það hefur færst í aukana að talsfólk og aðgerðarsinnar séu fórnarlömb morða, eða rúm 14%. Tekið skal fram að talan byggir eingöngu á skráðum fjölda morða á trans einstaklingum.
Trans Ísland, félag trans fólks á Íslandi, heldur minningardag trans fólks í húsnæði Samtakanna '78 klukkan 17:30 að Suðurgötu 3 í Reykjavík. Viðburðurinn fer fram á íslensku og er húsnæðið aðgengilegt fólki sem notar hjólastóla.