Aðgerðaáætlun um trjáfellingar í Öskjuhlíð samþykkt

Umhverfi

Unnið verður í samræmi við öryggisstaðla, og svæðið verður afgirt meðan á vinnu stendur.
Unnið verður í samræmi við öryggisstaðla, og svæðið verður afgirt meðan á vinnu stendur.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í morgun aðgerðaáætlun um trjáfellingar í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis. Málinu var vísað til staðfestingar borgarráðs.

Aðgerðir eru í samræmi við tilmæli Samgöngustofu frá 17. janúar þar sem óskað var eftir tímasettri aðgerðaáætlun vegna hæstu trjánna í Öskjuhlíð, sem talið er að geti haft áhrif á flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll.

Umfang framkvæmda

Um 730 tré voru felld í fyrri áfanga verksins sem lauk 22. febrúar. Nú í öðrum áfanga er fyrirhugað að fella 700-900 tré til viðbótar á skilgreindu svæði í Öskjuhlíð. 

Í þessum áfanga verða öll tré sem skaga upp í VSS-flöt eða eiga 50 cm eða minna í að ná upp í flötinn felld. Verkið verður unnið af verktaka undir stjórn Reykjavíkurborgar en það er fyrirtækið Tandrabretti sem mun nota sérhæfðar vélar til að fella trén og flytja bolina út úr skóginum. 

Í þriðja áfanga, sem hefst í mars verða allar greinar hreinsaðar úr skóginum, kurlaðar og komið í farveg. Áætlað er að rúmmál þessa efnis verði um 6.000-7.000 rúmmetrar eftir annan og þriðja áfanga.

Öryggisráðstafanir og samráð

Unnið verður í samræmi við öryggisstaðla, og svæðið verður afgirt meðan á vinnu stendur. Fylgt verður leiðbeiningum Minjastofnunar, Náttúruverndarstofnunar og Náttúrufræðistofnunar til að vernda fornminjar og jarðminjar á svæðinu. Samráð hefur verið haft við helstu stofnanir, þar á meðal Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun, Skipulagsstofnun, Land og skóg og Minjastofnun, sem gera ekki athugasemdir við framkvæmdina svo fremi sem þess er gætt að raska ekki náttúru- og menningarminjum.

Endurhönnun svæðisins

Samhliða trjáfellingunum verður svæðið endurhannað með það að markmiði að tryggja að Öskjuhlíð haldi sér sem vinsælt útivistarsvæði. Gefa þarf svæðinu tíma til að jafna sig, fylgjast með hvaða gróður kemur upp að sjálfu sér og ráðast í gróðursetningu eftir þörfum. Skipulagt verður hvernig ný rjóður og útivistarsvæði verða mótuð, og sérstök áhersla lögð á dvalarsvæði og fræðslu um náttúru- og menningarminjar á svæðinu. Landslagsarkitekt hefur þegar hafið vinnu við hönnun svæðisins og fyrstu tillögur verða kynntar á næstu mánuðum.

Trjáfellingarnar munu hafa áhrif á útlit Öskjuhlíðar, en í stað þéttra grenitrjáa munu opnast rjóður og svæðið fær nýtt útlit með lægri gróðri. Skógurinn mun að hluta endurnýja sig sjálfur, en einnig verður gróður settur niður eftir þörfum. Markmiðið er að tryggja að Öskjuhlíð haldi áfram að vera eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa, með aukinni áherslu á útivist, fræðslu og verndun minja.