47 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins í ár

Frá afhendingu Íslenskuverðlauna unga fólksins. Hópmynd.

47 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Hörpu í tilefni af Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Var það í nítjánda sinn sem verðlaunin voru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.

Börn úr 23 skólum hlutu verðlaun

Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Þeir 47 nemendur sem voru verðlaunaðir koma úr 23 grunnskólum í Reykjavík en samtals hafa tæplega 1.200 nemendur eða nemendahópar verið tilnefndir til verðlaunanna frá upphafi.

Frá afhendingu Íslenskuverðlauna unga fólksins.

Lestrarhestar og framúrskarandi upplesarar meðal verðlaunahafa

Á undanförnum árum hafa á bilinu 35 – 50 nemendur hlotið verðlaunin á hverju ári. Þeim er boðið á hátíðlega athöfn ásamt fjölskyldum sínum, stjórnendum og kennurum skólanna og skóla- og frístundaráði. Dagskráin fólst í að veita nemendum viðurkenningu en einnig lék Harpa Þorvaldsdóttir frá Syngjandi skóla á píanó í upphafi hátíðar, Steinn Jóhannsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs sagði nokkur orð og kór Fossvogsskóla, undir stjórn Bjargar Þórsdóttur, söng lögin Sumargestur og Á íslensku má alltaf finna svar.

Verðlaunin eru veitt nemendum sem hafa meðal annars sýnt færni, frumleika og sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti, sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar eða tekið miklum framförum í íslensku.

Fulltrúar skóla- og frístundaráðs afhentu verðlaunin

Nefnd um verðlaunin er skipuð fulltrúum frá skóla- og frístundaráði, fulltrúa úr hópi skólastjóra og frá fagskrifstofu grunnskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Marta Guðjónsdóttir fer fyrir nefndinni og er formaður hennar.

Fulltrúar skóla- og frístundaráðs, þau Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson, veittu nemendum verðlaun að þessu sinni, en þau voru viðurkenningarskjal með undirritun frú Vigdísar Finnbogadóttur og Ljóðaúrval Jónasar Hallgrímssonar.

Verndari verðlaunanna frú Vigdís Finnbogadóttir og forseti Íslands á árunum 1980-1996, var viðstödd hátíðina að þessu sinni.

Frá afhendingu Íslenskuverðlauna unga fólksins.
Hér má sjá Vigdísi Finnbogadóttur verndara verðlaunanna.