24 verkefni fá úthlutað úr Menningarnæturpotti Landsbankans

Mörg bíða með eftirvæntingu eftir Menningarnótt en hátíðin verður haldin þann 23. ágúst í Reykjavík. Í ár fá 24 spennandi verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans en öll eru verkefnin til þess fallin að gleðja gesti Menningarnætur 2025.
Starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar valdi styrkþegana en 80 umsóknir bárust að þessu sinni. Styrkupphæð nemur samtals fjórum milljónum króna og dreifast þær á 24 verkefni.

Verkefnin eru eins fjölbreytt og þau eru mörg og má nefna ýmiss konar tónlist og töfrabrögð, dans, brúðuskemmtun, endurnýtingu, ljóðaupplestur og götuhátíð. Hjólabrettaiðkendur á öllum aldri munu etja kappi á hjólabrettaviðburðinum Skrans auk þess sem gestir menningarnætur geta spreytt sig í keppni í bekkpressu undir berum himni og tekið þátt í Reykjavíkurmóti í hinum klassíska leik Skæri-blað-steinn!
Sannarlega fjölbreytt dagskrá á Menningarnótt í ár og um að gera að fara að hlakka til!
Sjáumst á Menningarnótt 23. ágúst!
