120 þúsund blóm í borginni
Mikið annríki hefur verið í ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogi og hjá garðyrkjunni síðustu vikurnar. Alls eru ríflega 120 þúsund blóm sem prýða borgina í sumar.
Ræktunarstöðin í Fossvogi sér um að rækta sumarblómin sem gróðursett eru um alla borg. Verkbækistöðvarnar, sem að annast viðhald skrúðgarða, trjágróðurs og blómabeða á opnum svæðum, sækja sumarblómin í ræktunarstöðina á vorin. Þegar bílarnir frá verkbækistöðvunum byrja að streyma inn á þarf að skipuleggja afhendingu blómanna svo allt gangi hnökralaust fyrir sig.
Starfsfólk garðyrkjunnar tekur því næst við blómunum og þá tekur við skapandi starf við að raða þeim saman í beð svo þau njóti sín sem best. Eitt af verkefnum garðyrkjunnar á veturna er að hanna blómabeðin í borginni, velta fyrir sér samsetningu og litum blómanna og huga að plöntun fyrir vorið.
120 þúsund blóm
Í ár framleiddi ræktunarstöðin um það bil 60 tegundir og 160 mismunandi yrki. Hverfabækistöðvarnar pöntuðu 4.443 bakka af sumarblómum og 5.871 pott af sumarblómum sem gera 120.882 blóm sem öll hafa verið gróðursett í borgarlandinu. Af þessum 160 tegundum og yrkjum eru margar stjúpur en þarna eru líka morgunfrúr, ljónsmunnur, möggubrá, sólboði, steinselja, tóbakshorn, snædrífa, silfurkambur og flauelsblóm svo eitthvað sé nefnt.
Blóm gleðja
Það er gjarnan sagt að Reykjavík sé að fara í sparifötin þegar byrjað er að setja niður sumarblómin. Allt kapp er lagt á að gróðursetja og gera fínt í miðborginni fyrir 17. júní ár hvert. Byrjað er að planta tegundum sem blómstra snemma á vorin eins og stjúpur, fjólur og fagurfífil. Svo taka aðrar tegundir við sem blómstra og gleðja í lok júlí, hvert tekur við af öðru. Í sumum hverfum er ákveðið litaþema og í ár er þemaliturinn í vesturhluta borgarinnar þetta sumarið gult, bleikt og fjólublátt.
Fjölbreytnin í blómategundunum sem gróðursett eru ár hvert hefur aukist með meira skjóli. Nú er hægt að prófa nýjar tegundir sem áður fyrr þótti vonlaust að rækta hér. Má þar nefna silkibygg sem hreyfist skemmtilega í vindinum.
Blómin í borginni í ár eru litrík og falleg og gleðja gesti og gangandi um alla borg. Starfsfólk garðyrkjunnar og ræktunarstöðvarinnar í Fossvogi á þakkir skildar fyrir vel unnin störf.