11 íslensk verkefni hljóta styrk úr Vestnorræna höfuðborgasjóðnum
Árlegur stjórnarfundur Vestnorræna höfuðborgasjóðsins fór fram þann 24. júní í Ráðhúsi Reykjavíkur. Stjórnarmeðlimir eru borgarstjórar og borgarfulltrúar Nuuk, Tórshavn og Reykjavíkur en hlutverk sjóðsins er að styðja við menningarsamstarf milli borganna þriggja.
Í ár bárust 51 umsókn um styrkveitingar en þar af bárust 24 frá Íslandi og hafa þær aldrei verið fleiri. Árið 2023 var ákveðið innan stjórnarinnar að hækka þá heildarupphæð sem er til úthlutunar fyrir árin 2024 og 2025, en þá hafði safnast saman talsverður afgangur frá úthlutunum sem áttu sér stað á meðan heimsfaraldur gekk yfir. Hver borg hafði því úr 300 þúsund dönskum krónum að spila við úthlutanir sínar í ár, líkt og í fyrra.
Menningarborgin Reykjavík fór yfir umsóknir og voru umsagnir um þær lagðar fyrir stjórnarmeðlimi sjóðsins á Íslandi. Ákveðið var að styrkja 11 verkefni en við ákvörðun stjórnar er m.a. metið hvort efni og umfang verkefna samrýmist reglum og markmiðum sjóðsins.
Verkefnin eru:
West Nordic Voices at RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík
Unison String Festival – Anna Hugadóttir
Sangturné til Faroerne – Benni Hemm Hemm og kórinn
Islands – Icescapes: Climate Change, Social Change – Guðjón Bjarnason og Magnea Marinósdóttir
Hoym – Tónleikaferðalag – Hljómsveitin Hoym
An Imortelle – Katrín Bára Elvarsdóttir
Vestnordiske Stemmer – Norræna húsið
Voices from the North: A multilingual literary exchange – Reykjavík Poetics
Heysahorn Pan-Nordic Assembly – Snæbjörn Helgi Arnarsson Jack
Klang REYK/THOR – Spectrum sönghópur
Söguhringur Project – Ós Pressan
Reykjavíkurborg óskar styrkhöfum til hamingju og vill um leið þakka öllum þeim sem sóttu um styrkveitingar fyrir góðar og áhugaverðar umsóknir.
Fyrir hönd borgarinnar sátu í stjórn sjóðsins þau Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstóri, og borgarfulltrúarnir Alexandra Briem og Kjartan Magnússon.