Stafrænt pósthólf innleitt hjá Reykjavíkurborg

Stjórnsýsla

Loftmynd af Reykjavík að vetri til. Snjór, hvít fjöll í bakgrunni, Hallgrímskirkja hægra megin í rammanum fyrir miðju, Tjörnin fremst.

Reykjavíkurborg hefur innleitt stafræna pósthólfið á island.is og miðlar nú gögnum með þeim hætti til einstaklinga og fyrirtækja.

Einstaklingar og lögaðilar eiga sitt stafræna pósthólf þar sem birtar eru sértækar persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja. Samkvæmt lögum er öllum opinberum aðilum, þar með talið sveitarfélögum og stofnunum þeirra, skylt að bjóða upp á birtingar gagna til einstaklinga og lögaðila í stafræna pósthólfinu eigi síðar en fyrsta janúar 2025. Með lögunum er fest í sessi sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað, gegnum stafrænt pósthólf á island.is. Er markmiðið að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og lögaðila.

Fullgilt að birta í stafrænu pósthólfi

Þegar gögn eru gerð aðgengileg í stafræna pósthólfinu teljast þau birt viðtakanda með fullgildum hætti. Þetta þýðir að skjöl, til dæmis tilkynningar, ákvarðanir, úrskurðir, greiðsluáskoranir og stefnur, teljast lögformlega birt þegar þau eru sett inn í stafræna pósthólfið. Heimilt er að birta bæði almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar í stafrænu pósthólfi, samkvæmt lögum um persónuvernd, en ekki má birta auglýsingar eða almennar upplýsingar eins og fréttabréf, breyttan opnunartíma eða ábendingar um fresti.

Vert er að taka fram að forsjáraðilar hafa aðgang að gögnum barna undir 18 ára aldri, nema þegar um er að ræða heilsu- eða dómsmál, sem eru aðeins aðgengileg til 16 ára aldurs.

Einstaklingar og lögaðilar geta óskað eftir að fá gögn með öðrum hætti, til dæmis á pappír og má óska eftir slíku rafrænt á Ísland.is eða í persónu hjá sýslumönnum. Gögnin verða þó áfram aðgengileg á stafrænu formi. Á Ísland.is má stýra hvernig hnippum er háttað þegar ný bréf eru birt í pósthólfinu.

Nánari upplýsingar um stafrænt pósthólf.