Sinna þjónustu við íbúa og vinna að fjölbreyttum umbótum í velferðarþjónustu

Hópmynd af fólkinu sem kom fram á velferðarkaffi og fulltrúum í velferðarráði.

Fjallað var um Rafræna miðstöð velferðarsviðs á velferðarkaffi, opnum fundi velferðarráðs, í morgun. Hlutverk Rafrænnar miðstöðvar er að sinna fjölbreyttri þjónustu við íbúa og vinna að ýmiss konar umbótum á velferðarþjónustu. 

Fjórar miðstöðvar þjónusta hver sinn borgarhluta í Reykjavík. Rafræn miðstöð er fimmta miðstöðin en hún varð til árið 2021 í framhaldi af umfangsmiklum skipulagsbreytingum sem tengdust innleiðingu velferðarstefnunnar. Öll þjónusta sem veitt er í gegnum miðstöðina fer fram rafrænt, ýmist gegnum síma eða skjáinn. 

Miðstöðin sinnir ýmiss konar framlínuþjónustu. Þannig hefur öll símsvörun og mikill hluti af svörun tölvupósta færst til hennar. Stór hluti umsókna sem berast velferðarsviði er líka afgreiddur þar. Allt léttir þetta álagi af öðrum miðstöðvum og gerir ráðgjöfum þeirra kleift að einbeita sér að málum sem síður má afgreiða með rafrænum leiðum. 

Rafræn miðstöð vinnur einnig samkvæmt lágþröskuldarþjónustu, sem felst í því að ráðgjöf er veitt beint í gegnum síma. Þá er samþætt heimaþjónusta einnig veitt í gegnum fjarlausnir og velferðartækni. 

Hin hliðin á starfsemi Rafrænnar miðstöðvar er að vinna að umbótum, bæði hjá miðstöðinni sjálfri en einnig í annarri þjónustu velferðarsviðs. Þá sér hún um innleiðingu á velferðartækni og innleiðingu stafrænna lausna. 

Starfsemi Rafrænnar miðstöðvar skiptist í þjónustuteymi, ráðgjafarteymi, umbótateymi, skjáver og Velferðartæknismiðjuna. Fjallað var um ólík hlutverk þeirra og starfsemi á fundinum í morgun. 

Smelltu hér til að horfa á streymið í heild.