
Vinsemd og vilji til að læra íslensku skín úr hverju andliti í skóla- og fjölskyldumiðstöð sem hefur verið opnuð í Safamýri fyrir flóttafólk frá Palestínu. Þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri mætti í heimsókn í morgun sungu börnin fyrir hann og aðra gesti litalagið Gulur, rauður, grænn og blár á íslensku með myndarbrag þrátt fyrir að hafa verið hér á landi í skamman tíma.

Fá mjúka lendingu eftir komu úr stríðsástandi
Markmiðið með miðstöðinni er að bjóða hópnum sem er nýkominn til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar upp á mjúka lendingu í íslensku samfélagi. Þau eru að koma úr stríðsástandi og mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að fræðast um íslenskt samfélag, skólakerfi og fá grunn í íslensku. Samskonar úrræði var sett á fót vorið 2022 og fram á sumar þegar hópur flóttafólks frá Úkraínu kom hingað til lands í kjölfar innrásar Rússlands.
Dugleg að læra íslensku
Dagbjört Ásbjörnsdóttir verkefnastjóri fjölmenningar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur gerir ráð fyrir að miðstöðin verði opin út júní. Börnin í skóla- og fjölskyldumiðstöðinni eru á öllum aldri og eru búin undir að taka þátt í grunnskóla-, leikskóla- og frístundastarfi í ágúst. Um 70 koma í miðstöðina daglega til að nýta tækifærið til að hittast og læra íslensku.
Öll eru mjög þakklát fyrir að vera komin í skjól á Íslandi og bæði börn og fullorðnir taka þátt í starfinu að krafti. Dagbjört segir mikilvægt fyrir mörg barnanna að vera fyrst um sinn með foreldrum sínum á meðan þau venjist umhverfinu og finni öryggi í nýjum aðstæðum.

Mikil ánægja var með heimsókn borgarstjóra og vildu allir fá mynd af sér með Einari.