Menningarnótt – breytingar á kvölddagskrá og hlaupaleiðum Reykjavíkurmaraþons

Tónleikar á Arnarhóli á Menningarnótt

Breytingar á hlaupaleiðum Reykjavíkurmaraþons og kvölddagskrá Menningarnætur voru samþykktar á fundi borgarráðs í dag. Þetta er meðal tillagna starfshóps sem var stofnaður til að endurskoða skipulag hátíðanna tveggja sem haldnar eru saman dag ár hvert og njóta mikilla vinsælda.

Starfshópnum um endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons var falið að kanna hvort ástæða væri til að endurskoða fyrirkomulag hátíðarhalds í miðborg Reykjavíkur fyrsta laugardag eftir 18. ágúst, afmælisdag Reykjavíkurborgar.

Tvær vinsælustu hátíðir landsins

Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar og var fyrst haldin árið 1996. Hátíðin hefur frá upphafi skipað mikilvægan sess í viðburðahaldi borgarinnar þar sem listafólk, menningarstofnanir, íbúar og rekstraraðilar fá tækifæri til að bjóða til veislu í miðborginni. Hátíðin er fjölmennasta hátíð landsins og dagskráin byrjar á hádegi og stendur fram á kvöld.

Reykjavíkurmaraþonið er haldið sama dag og hefur þátttaka aukist ár frá ári. Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu árið 1984, þegar það var haldið í fyrsta sinn, voru 214 en þetta ár voru þeir 14.646. 

Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni 2024
Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni 2024

Breyttar hlaupaleiðir, styttri kvölddagskrá og forvarnarherferð

Tillögur hópsins sem borgarráð samþykkti í dag líta annars vegar til næsta árs, og hins vegar að ráðist verði í skoðun á viðburðahaldi í miðborginni til framtíðar, þar með talið Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon. Ekki eru lagðar til breytingar á dagsetningu hátíðanna. 

Tillögur fyrir árið 2025: 

• Hlaupaleiðum Reykjavíkurmaraþonsins verður breytt. Endamarkið verður fært frá Lækjargötu yfir í Geirsgötu til að auðvelda flæði fólks um Lækjargötu og takmarka umferð þungavinnuvéla sem fylgja frágangi hlaupsins. 

• Skemmtiskokk verður fært úr Þingholtunum í Gamla vesturbæinn til að létta á flóknum götulokunum í Þingholtunum, þar sem einnig eru götulokanir vegna Menningarnæturdagskrár, og auka öryggi almennings og lágmarka óþægindi íbúa í tengslum við aðgengi. 

• Dagskrá Menningarnætur mun ljúka formlega klukkustund fyrr en áður. Tónleikar við Arnarhól skuli ljúka með flugeldasýningu kl. 22.00 í stað 23.00. 

• Í aðdraganda hátíðarhaldanna verður farið í herferð þar sem forvarnaskilaboðum verður komið vel á framfæri. 

• Lagt verður til aukið fjármagn til gæslu og í kynningar sem lið í forvarnarstarfi. 

Viðburðahald í miðborginni - framtíðarsýn mótuð

Í framhaldi verður stofnaður starfshópur til að skoða framtíðarfyrirkomulag viðburða í miðborg Reykjavíkur með tilliti til öryggismála, Borgarlínu og annarra skipulagsmála. Lagðar verða skýrar línur um hvernig viðburðahald fer fram í miðborginni, hvernig hægt er viðhalda áhugaverðu menningarlífi í borginni en á sama tíma gæti fyllsta öryggis íbúa og framtíðarsýn mótuð.

Skýrsla starfshóps um endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons