Krókódílaklíkan og Hanna Gréta sigruðu

Skóli og frístund

Breiðholt Got Talent 2024

Hæfileikakeppnin Breiðholt Got Talent var haldin í Breiðholtsskóla síðastliðinn föstudag. Óhætt er að segja að að viðburðurinn sé einn af hápunktum í félagsmiðstöðva- og frístundastarfi í Breiðholtinu á hverju ári. 

Fyrri hluta dags var haldinn frístundahluti keppninnar þar sem frístundaheimilin sjö sendu hvert tvö atriði í keppnina. Hanna Gréta Garajszki frá frístundaheimilinu Hraunheimum sigraði svo Breiðholt Got Talent – frístund 2024 með frumsamið dansatriði. 

Stemning og eftirvænting fyrir keppninni

Kynnar að þessu sinni voru Leikhópurinn Lotta og voru þau einnig með skemmtiatriði í dómarahléi sem mæltist vel fyrir hjá krökkunum. Í keppninni fá krakkarnir úr frístundaheimilum Breiðholts tækifæri til að sýna fjölbreytta hæfileika fyrir framan fullan sal af áhorfendum og hefur keppnin lengi verið gífurlega vinsæl hjá krökkunum. Haldnar eru undankeppnir á hverju frístundaheimili fyrir sig og mikil eftirvænting og stemning fyrir keppninni.

Framtíðin björt í Breiðholti og hæfileikar á hverju strái

Um kvöldið tók svo félagsmiðstöðvahlutinn við og í ár tóku yfir 60 unglingar þátt í keppninni sjálfri og yfir 300 mættu til þess að horfa á. Keppendurnir sýndu fjölbreytta hæfileika í dansi, söng, rappi og listgjörningum. Samhliða Talent keppninni var söngkeppni Breiðholts haldin. Sigurvegarinn í henni var Zuzanna í 9. bekk Fellaskóla og keppir hún fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Hundraðogellefu í söngkeppni Samfés sem fer fram í maí. 

Skipulagning þegar hafin fyrir næstu keppni

Sigurvegarar í Talentinu var rapphópurinn Krókódílaklíkan sem strákar í félagsmiðstöðinni Hólmaseli skipa. Þetta var í annað sinn sem þeir taka þátt í keppninni og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar að úrslitin voru kunngjörð. Margir unglingar sem tóku þátt eru nú þegar farin að skipuleggja atriðið fyrir næsta ár og því ljóst að keppnin er svo sannarlega komin til að vera.