Jólabjallan á mótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis

Jólabjallan á mótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis

Jólabjallan í Reykjavík var fyrst sett upp á gatnamótum Vesturgötu, Aðalstrætis og Hafnarstrætis árið 1943.

Eigendur raftækjaverslunarinnar Rafals ákváðu að gleðja borgarbúa með því að setja upp raflýsta útijólaskreytingu. Var þetta sú fyrsta sem sett var upp í Reykjavík og tók það ekki mörg ár fyrir bæjarbúa að líta á bjölluna sem fyrsta jólaboðann. Inni í bjöllunni var hátalari sem spilaði bjölluhljóm á fimmtán mínútna fresti. 
 
Þegar verslunin, sem þá hafði fengið nafnið Raforka, flutti á Grandagarð 1967, tóku eigendurnir bjölluna með sér. Ári síðar flutti verslunin í Austurstræti 8, og bjallan með. Hún var þá sett upp á hverju ári fyrir jólin allt til ársins 1978 þegar verslunin hætti.
 
Endurgerð var síðar sett upp á upphaflegum stað árið 1990 og sú bjalla er enn í notkun. Jólabjöllurnar sem prýða miðborgina eru í dag alls 15 talsins en bjallan frá 1990 er sú stærsta af þeim.