Kynningafundur á stöðu framkvæmda við 3. áfanga Arnarnesvegar var haldinn nýlega í Seljaskóla og var hann vel sóttur. Fulltrúar Vegagerðarinnar voru með kynningu og einnig var kynning á Vetrargarðinum í Breiðholti. Um 50 sóttu fundinn og fengu svör við flestum spurningum.
Jóhannes Guðlaugsson hjá Suðurmiðstöð var fundarstjóri, Kristján Árni Kristjánsson, verkefnistjóri á Höfuðborgarsvæði hjá Vegagerðinni og Höskuldur Tryggvason, umsjónarmaður framkvæmda hjá Vegagerðinni, upplýstu um framkvæmd Arnarnesvegar og Atli Steinn Árnason, skrifstofustjóri Útilífsborgar Reykjavíkur, upplýsti um framkvæmd tengdum Vetrargarði.
Arnarnesvegur
Arnarnesvegur er hluti af samgöngusáttmála. Þriðji áfangi, sem hér um ræðir, liggur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem er innan Reykjavíkur og Kópavogs. Markmið framkvæmda er að:
- Bæta tengingar við jaðarsvæði Reykjavíkur og Kópavogs.
- Bæta þjónustustig samgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu - fyrir bílaumferð og gangandi og hjólandi.
- Bæta afköst á gatnamótum við Breiðholtsbraut og færa gegnumakstursumferð fjær íbúabyggð.
- Bæta viðbragðstíma neyðaraðila.
Vetrargarður
Vetrargarðurinn verður mikil bragarbót fyrir hverfin í kring. Verkið verður unnið í áföngum en í fyrsta áfanga er verið að vinna að landmótun. Lögð verður áhersla á fjölskylduvænt umhverfi og að sáð verði í brekkur og gróðursett í kringum þær til að skapa skjól. Möguleiki verður á að koma upp snjóframleiðslu og þurrskíðunarteppi á seinni stigum framkvæmda. Einnig er gert ráð fyrir að þjónustuhúsi í framtíðinni auk þess sem aðgengi að svæðinu verður bætt. Markmið framkvæmda:
- Stuðlar að aukinni útivist og hreyfingu
- Áhersla á fjölskylduvænt svæði og fyrir byrjendur fyrir þá sem vilja stunda skíðaíþróttina
- Skíðakennsla fyrir börn í leik-og grunnskóla, móttaka hópa frá frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og ýmsum félagasamtökum
- Bætt aðstaða fyrir skíða og snjóbrettaæfingar
- Styður við uppbyggingu skíðasvæðisins í Bláfjöllum og í Skálafelli
- Staðsetning góð
- Stutt að fara
- Veður hagstætt
- Frábært útsýni
Spurt og svarað á fundinum
Góðar umræður voru á fundinum og spurningar.
- Spurt var um hreinlætisaðstöðu fyrir vetrargarðinn. Svarið er að hún verður í bráðabirgðahúsnæði fyrst í stað en flyst svo í þjónustu- og veitingahúsið þegar það er tilbúið.
- Vinir Vatnsenda spurðu um trjágróður sem var fjarlægður án þess að kynna það fyrir íbúum og hvort leyfin séu opinber. Svar: Leyfi er fyrir framkvæmdinni frá yfirvöldum og öll voru áhrif metin. Vegurinn hefur verið á aðalskipulagi lengi, þar sem gert var ráð fyrir þessu.
- Spurt var um hvort hægt sé að lengja græna gönguljósið til að auðvelda fólki ferðina yfir Breiðholtsbrautina og hvort hægt sé að vara ökumenn við með góðum fyrirvara með skiltum. Svar: já, það er þegar komið í vinnslu og verður afgreitt fljótlega í júní.
- Áhrif á hljóðvist – spurt hvort ekki hægt sé að gera meira úr svæðinu en aðeins skíðasvæði sem eingöngu nýtt í 60 daga. Svar: Jú, fjallahjólabraut verður sett upp, þannig að hægt sé að nýta svæðið allt árið. Mögulega að setja töfrateppi þannig að hægt sé að nýta brekkuna allt árið.
- Kvartað var yfir hávaða kl. 7 á laugardagsmorgni. Um var að ræða bakkhljóð úr vinnuvélum. Svar: Þetta þarf að skoða betur. Í verksamningi er talað um að ekki megi vera hávaði fyrir kl. 10 um helgar.
- Vetrargarður, spurt um umhverfismat í sambandi við mengun frá veginum. Svar: Vetragarðurinn hefur ekki farið í umhverfismat vegna svifryksmengunar.
- Stórgrýtið sem er þarna í kring. Verður hægt að jafna það almennilega niður? Svar: Öllu stórgrýti verður komið fyrir á viðunandi hátt, ýmist í fyllingar, grjóthleðslur eða flutt af staðnum.
- Hvenær verður búið að binda mold sem er í Vetragarðinum? Svar: það er verið að jafna þarna í kring. Verður bundið í sumar.
- Spurt um bílastæði við Vetragarðinn. Svar: Það verða bílastæði við Rjúpnaveginn sem fer uppeftir.
- Spurt um vistlok - áhyggjur að það verði hljóðmön fari yfir fallegan gróður. Svar: þarna er verið að verja ákveðna blómategund.
- Spurt um lýsingu í Vetrargarði en gert er ráð fyrir að sleðabrekku við íbúðarhús, hefur áhyggjur af lýsingu. Svar: Já ef nýta á brekkuna á kvöldin þá þarf lýsingu. En hugað verður að hljóðvist og að lýsing trufli ekki nágranna.
- Gert er ráð fyrir göngustig, spurt um hvort hann verði nálægt íbúðarbyggð. Svar: Reykjavíkur megin liggur stofnstígur frá fyrirhugaðri göngubrú yfir Arnarnesveg og áfram að brú yfir. Breiðholtsbraut. Þessi stígur liggur á milli Vetrargarðs og Arnarnesvegar. Tengingar inn á stofnstíginn þurfa sveitarfélögin (RVK og KÓP) að staðsetja.
- Spurt um göngustígabraut í Vetragarðinum: Svar: Því miður verður það ekki, svæðið býður ekki uppá það.
- Spurt um loftgæði. Íbúðarráð hefur tekið þetta föstum tökum – ekki hafa verið mæld loftgæði í Breiðholti undanfarin ár. Svar: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mun á næstu mánuðum færa báðar loftgæðafarstöðvar heilbrigðiseftirlitsins frá núverandi staðsetningum þar sem þær hafa verið í nær tvö ár. Til skoðunar er að flytja einn mæli í Breiðholtshverfið en endanleg staðsetning hefur ekki verið valin. Vegna endurnýjunar og viðhalds á búnaði hefur dregist að færa loftgæðafarstöðvarnar en eins og áður hefur verið nefnt verður það á næstu mánuðum.
- Spurt um aðgengi úr Seljahverfinu, svarið er að ekkert muni breytast þar.
- Spurt um göngustíga og aðgengi úr Ögurhvarfi aftur uppá Breiðholtsbraut. Svar: I) Akstursleið Seljahverfi – Ögurhvarf: Úr Seljahverfi eftir Breiðholtsbraut inn Vatnsendahvarf að Ögurhvarfi. II) Akstursleið frá Ögurhvarfi að Seljahverfi: Eftir Vatnsendahvarfi og Vatnsendavegi að nýju hringtorgi á Arnarnesvegi. Eftir Arnarnesvegi niður á Breiðholtsbraut og að Seljahverfi. III) Gönguleið (Kópavogur framkvæmir) verður meðfram Breiðholtsbraut á milli Vatnsendahvarfs og undir Arnarnesveg. Einnig verða gönguleiðir í gegnum Vatnsendahverfið að nýrri göngubrú þverar Arnarnesveg á móts við Jakasel.