Í minningu vinar og samstarfsfélaga
Foreldrar Guðna Péturs Guðnasonar, sem lést þann 21. janúar 2021, hafa í samstarfi við Reykjavíkurborg látið reisa fallegt gróðurhús við íbúðakjarna á Flókagötu, þar sem hann starfaði. Það vildu þau gera fyrir íbúa og samstarfsfólk Guðna Péturs á íbúðakjarnanum en Guðni var með græna fingur og hafði yndi af ræktun.
Guðni var staddur í Sundhöll Reykjavíkur ásamt íbúa Flókagötunnar þegar hann fékk hjartastopp. Hann lá lengi á botni laugarinnar áður en hans varð vart. Í kjölfar andláts Guðna tóku foreldrar Guðna upp samstarf við Reykjavíkurborg, með það að markmiði að bæta enn frekar öryggismál í sundlaugum borgarinnar.
Tilögur sem snúa að bættu öryggi í sundlaugum
Úr því samstarfi komu þrettán tillögur sem snúa að bættu öryggi í sundlaugum Reykjavíkur en þær eiga að vera komnar til framkvæmda árið 2026. Í tillögunum er meðal annars lögð áhersla á að efla fræðslu og tryggja reglulegar úttektir á öryggismálum. Jafnframt verður ein vika á ári tileinkuð vitundarvakningu um öryggismál í minningu Guðna. Vika af því tagi var í fyrsta skipti haldin fyrr á þessu ári en þá var áherslu lögð á að kynna öryggisatriði í sundlaugum.
Minningarsteinn reistur við gróðurhúsið
Minningarreiturinn um Guðna var afhjúpaður við látlausa athöfn þann 14. júlí síðastliðinn. Við hlið gróðurhússins hefur verið reistur minningarsteinn með áletruninni: „Við þökkum fyrir kærleikann, umhyggjuna, gleðina og hláturinn. Dýrmætar minningar lifa í hugum okkar og hjörtum.“