Fjölmennt á fundum borgarstjóra í Grafarholti og Úlfarsárdal og Kjalarnesi

Kona spyr Einar Þorsteinsson að spurningu á fundi

Það var enginn skortur á hugmyndum um hvernig gera má góð hverfi betri á opnum fundum borgarstjóra með íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal og Kjalarnesi í dag. Íbúar á hvorum stað virtust sammála um að hvergi væri betra að búa en í hverfinu þeirra.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri heldur áfram heimsóknum sínum í hverfi borgarinnar þar sem hann býður íbúum upp á opið samtal þar sem rætt er um hvað fólk kann best að meta við hverfið sitt og hvað má betur fara.

Í nágrenni við náttúruna með hlýtt hjarta

Hátt á sjöunda tug fólks tók þátt í líflegum umræðum í Menningarhúsinu í Úlfarsárdal. Þegar rætt var um það besta í hverfinu þá var náttúran og nálægð við hana það sem fólk nefndi oftast. Þá var mikið rætt um hjartað í hverfinu sem er nýja menningarhúsið og sundlaugin sem er samtengd grunn- og leikskóla og íþróttahúsi og æfingavöllum Fram. Einn íbúi talaði sérstaklega um forvarnaráhrifin af svona góðri aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn, öflugt starf Fram og félagsmiðstöðvarinnar og það hversu vel laugin væri sótt af unglingum á kvöldin. “Þetta er náttúrulega bara algjör snilld!” sagði annar íbúi um hjartað í hverfinu.

Einar Þorsteinsson situr við borð og spjallar við þrjár konur

Íbúar vilja meðal annars fleiri matvöruverslanir í hverfið, kaffihús og bakarí, greiðari almenningssamgöngur og fleiri göngustíga. Svo var rætt um að kaldi potturinn í sundlauginni mætti vera kaldari – en ekki voru reyndar öll sammála um það. Þá töluðu mörg um að þetta góða hverfi mætti alveg sjá hraðari uppbyggingu og hvöttu borgarstjóra til að beita sér fyrir því. Umferðaröryggismál voru einnig rædd í þaula og margar hugmyndir um hvað betur mætti fara í þeim málum. Ung móðir ræddi leikskólamál sérstaklega en barnið hennar hefur ekki fengið boð í aðlögun þrátt fyrir að hafa fengið úthlutað plássi í september. Borgarstjóri sagði unnið að því að bæta innritunarferla í leikskólana.

Samgöngumál ofarlega á baugi á Kjalarnesi

Óhætt er að segja að Kjalnesingar eigi vinninginn þegar kemur að hlutfallslegri mætingu á opna fundi borgarstjóra. Bæta þurfti við stólum og borðum í Fólkvangi í upphafi fundar svo vel myndi fara um fundargesti sem töldu vel á sjötta tug þrátt fyrir einstaklega stillt og fallegt veður þennan laugardagseftirmiðdag.

Einar Þorsteinsson spjallar við fólk á fundi og sólríkur dagur sést í gegnum glugga

Friðsæld og nálægð við náttúruna, góð loftgæði, einstakt nágrannasamfélag, sundlaugin og góðir skólar voru meðal þess sem Kjalnesingar nefndu sem helstu kosti hverfisins. Einn íbúi nefndi líka fjarlægð frá 101 sem sérstakan kost. Mikil áhersla var lögð á að halda í sérstöðu hverfisins sem sveit í borg með sínum sterku nágrannatengslum og óspilltu náttúru.

Eins og í Grafarholti og Úlfarsárdal töluðu fundargestir um þörf á því að hraða uppbyggingu og fjölga íbúum. Ennfremur var mikið rætt um samgöngumál, svo sem að bæta almenningssamgöngur og hjóla,- göngu- og reiðleiðir, og að hrinda framkvæmdum við nýju Sundabrautina í gang. 

Gestir þökkuðu fyrir skemmtilegan fund og góðar umræður.