Bergstaðastræti næst Laugavegi verður vistgata

Samgöngur

Vistgata er gata þar sem gangandi vegfarendur eru í forgrunni. Vélknúnum ökutækjum er heimilt að aka á að hámarki 15 km/klst hraða og ber að sýna gangandi vegfarendum sérstaka tillitssemi og að víkja fyrir þeim.
Gata, hvílustæði, rautt hús.

Bergstaðastræti milli Skólavörðustígs og Laugavegs verður gert að vistgötu. Þetta var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar þann 13. mars síðastliðinn. Það voru íbúar og rekstraraðilar við götuna sem óskuðu eftir því að þessi hluti götunnar yrði gerður að göngugötu.

Skrifstofa samgangna og borgarhönnunar fagnar frumkvæði og áhuga húseigenda og rekstraraðila á svæðinu um bætt umhverfi og aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Eftir skoðun á aðstæðum og umhverfinu í kring er niðurstaðan sú að gatan verði gerð að vistgötu í stað göngugötu. Hinum megin við Laugaveg er Smiðjustígur sem er nú þegar vistgata. 

Gatnakerfið í nágrenni þessa hluta Bergstaðastrætis einkennist af einstefnugötum. Þannig er einstefna til suðurs á Klapparstíg og Vitastíg og til norðurs á Frakkastíg og Bergstaðastræti. Í umsögn skrifstofunnar segir að mikilvægt sé að halda í þetta net til að að sú umferð ökutækja sem þarf að komast um, til dæmis vegna vörudreifingar, dreifist jafnar og komist sem stysta leið að og frá svæðinu. 

Hvað þýðir þetta?

Samkvæmt umferðarlögum er óheimilt að leggja ökutækjum í vistgötu nema í merktum stæðum. Gert er ráð fyrir í þessari tillögu að flest stæðin á þessum götukafla leggist af. Tvö stæði fyrir hreyfihamlaða halda sér.

Á þessum kafla götunnar er Kaffibarinn og fyrir framan hann hafa almenn stæði núþegar verið tekin í aðra notkun með svokölluðum hvílustæðum með útidvalarsvæði fyrir gesti og gangandi.

Hvað er vistgata?

Vistgata er gata þar sem gangandi vegfarendur eru í forgrunni. Vélknúnum ökutækjum er heimilt að aka á að hámarki 15 km/klst hraða og ber að sýna gangandi vegfarendum sérstaka tillitssemi og að víkja fyrir þeim. Með vistgötu er hægt að halda opinni akstursleið en á sama tíma vinna með að bæta aðgengi og rými fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og gesti rekstraraðila götunnar, þar sem æskilegt er að ekki séu kantsteinar í vistgötum sem deila upp rýminu heldur verður rýmið samrými. 

Hvenær tekur þetta gildi?

Næst verður breytingin auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en gera má ráð fyrir því að hægt verði að setja upp umferðarmerki eftir um mánuð eða svo.