Bergs minnst sem frumkvöðuls í leikskólastarfi

Skóli og frístund

Bergur Felixson

Bergs Felixsonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur, sem lést 1. desember síðastliðinn var minnst á fundi skóla- og frístundaráðs í gær. Bergur, sem náði 87 ára aldri, lét mikið að sér kveða í málefnum barna og var í fararbroddi fyrir Leikskóla Reykjavíkurborgar á tímum þegar leikskólastarf var í hvað mestri þróun og leikskólum fjölgaði ört um alla Reykjavík.

Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Barnavinafélagsins Sumargjafar á árunum 1975 – 1978 og tók svo við sem framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur árið 1978 þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun árið 2007.

Leikskólinn varð fyrsta skólastigið

Framsækið og faglegt leikskólastarf var Bergi hjartans mál og undir hans stjórn umbreyttust dagheimili Reykjavíkurborgar í leikskóla og þá varð um leið til fyrsta skólastigið. Á hans tíma voru opnaðir fjölmargir leikskólar sérhannaðir fyrir leikskólastarf og átti hann stóran þátt í að bæta aðstöðu og aðgengi ungra Reykvíkinga að leikskólum.

Bergur lagði einnig áherslu á gott samstarf við foreldra og var leiðandi í að nýta foreldrakannanir til að bæta og þróa leikskólastarf í borginni.

Minnast trausts yfirmanns og samstarfsmanns

Leikskólastjórar, starfsfólk leikskóla og samstarfsfólk hjá Reykjavíkurborg minnast Bergs með hlýju og sem trausts yfirmanns og samstarfsmanns sem studdi vel við leikskólastarf borgarinnar. Hann var í fararbroddi við að lyfta upp því mikilvæga starfi sem unnið er á leikskólum og stuðlaði að jákvæðum viðhorfsbreytingum gagnvart leikskólastarfi og leikskólakennurum.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar vottar aðstandendum Bergs Felixsonar innilega samúð.