Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar-september 2024

Fjármál

Ráðhús Reykjavíkurborgar upplýst í fjólubláum lit í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember síðastliðinn Ragnar Th. Sigurðsson
Ráðhús Reykjavíkur um vetur úr lofti lýst fjólubláum ljósum. Einnig sést Kvosin úr lofti.

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-september 2024 var afgreiddur í borgarráði í dag. Útkomuspá fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu ársins sem nemur um 531 milljón króna. Ekki eru horfur á öðru en það gangi eftir.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 1,6 milljarða króna sem var 4,5 milljörðum króna betri niðurstaða en fyrir sama tímabil 2023. Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 var neikvæð um 1,1 milljarð króna sem var 300 milljónum króna betri niðurstaða en á sama tímabili 2023. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 9,3 milljarða króna sem var um 2,7 milljörðum betri niðurstaða en fyrir ári síðan.

Síðastliðin ár hefur rekstrarumhverfi Reykjavíkurborgar einkennst af þenslu á vinnumarkaði, þrálátri verðbólgu og háum vöxtum. Að undanförnu hafa þó væntingar aukist um meiri stöðugleika meðal annars vegna hóflegra kjarasamninga sem sveitarfélögin studdu myndarlega með vilyrði um lækkun gjaldskráa og þátttöku í gjaldfrjálsum skólamáltíðum. 

Óvissa næstu missera snýr aðallega að því hversu vel gengur að ná niður verðbólgu og vöxtum án þess að kæla hagkerfið um of. Þannig er í nýbirtri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 4. nóvember sl. gert ráð fyrir 0,1% hagvexti í ár og 2,4% á því næsta. Þá er einnig enn ósamið við stéttarfélög á opinberum markað, þar með talið við Kennarasamband Íslands sem hefur staðið í verkfallsaðgerðum.

Enn reynir á fjárhagsleg samskipti ríkis og borgar sem og annarra sveitarfélaga. Vegur þar þyngst fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks en mikilvægir áfangar hafa náðst á síðustu tveimur árum í þeim efnum og fjármagn aukið til málaflokksins með tilfærslu skatttekna frá ríki til sveitarfélaga. Er þó ennþá óútfært hvernig þjónusta við fatlað fólk verður fjármögnuð til framtíðar og talsvert í land sérstaklega þegar kemur að því að takast á við fjármögnun á þjónustu við börn með fjölþættan vanda og fatlað fólk sem þarf að sæta öryggisráðstöfun svo dæmi sé tekið. Auk þess liggur ekki fyrir hvernig sveitarfélögin geti tekist á við fyrirsjáanlegar þarfir við frekari uppbyggingu húsnæðisúrræða og fjölgunar NPA samninga.

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025-2029 sem samþykkt var í borgarstjórn þann 3. desember eru áfram gerðar ríkar kröfur um aðhald í rekstri. Tekið var upp nýtt verklag þar sem skerpt var á ábyrgð stjórnenda og fagráða að forgangsraða þjónustu og verkefnum innan þess fjárhagslega svigrúms sem til staðar er á komandi rekstrarári. Fjárhagsáætlunin byggir á grunni fjármálastefnu Reykjavíkurborgar.

Tilkynning til Kauphallar Íslands 5. desember 2024