Vel heppnuðum vinnusmiðjum með yfir 200 unglingum í Reykjavík er ný lokið. Vinnusmiðjunum er ætlað að ýta undir lýðræðislega virkni nemenda í skóla- og frístundastarfi og möguleika þeirra til að hafa áhrif á eigið nám. Margar frábærar, skemmtilegar og framsýnar hugmyndir komu fram í hópastarfinu. Í þessu sambandi var líka fjallað var um hlutverk nemendafélaga og félagsmiðstöðvaráða.
Vilja meiri tækni- og verkmenntun
Margar hugmyndir komu fram þegar unglingarnir lögðust í hugmyndavinnu um tilhögun skólastarfs. Mörg töldu mikilvægt að efla ætti iðn-, tækni og verkgreinar í grunnskólum, eins komu fram vilji til að efla lífsleikni og kynfræðslu og að læra meira um praktísk mál eins og um fjármál, skatta, íbúðakaup. Þá komu fram hugmyndir eins og að hefja fornám ökunáms í grunnskóla, að hægt væri að velja hvaða tungumál sem er í stað dönsku. Flest virtust á því að halda í hefðbundnu kjarnagreinarnar eins og íslensku, stærðfræði, ensku og samfélagsfræði.
Þá komu ýmsar hugmyndir um þann tíma sem skólastarf ætti að standa yfir. Sumir voru á því að styttri hlé og þéttari skóladagur væri málið á meðan aðrir vildu jafnvel lengja skóladaginn en fá í staðinn lengri hlé og matartíma til að njóta samvista hvert við annað.
Vilja kósí umhverfi í nýjum skóla
Við hönnun nýs unglingaskóla var ýmislegt sammerkt með því sem þátttakendurnir vildu sjá, til dæmis töluðu þau mörg um að hafa umhverfið kósí með nútímalegum húsgögnum eins þægilegum sófum, teppum og púðum. Þá var nefnd aðstaða til að hita samlokur og núðlur og gott væri að hafa lágvöruverslun í nágrenni við skólann. Þá komu fram hugmyndir um bíósal, lærdómsherbergi með heyrnartólum, stóran matsal, stóra lóð með góðri íþróttaaðstöðu, stofur fyrir skapandi starf og margt annað.
Mögulega áframhaldandi verðbólga og bílar sem ganga fyrir plasti
Beðin að horfa nokkur ár fram í tíma sáu flest jákvæðar framfarir eins og spennandi tækifæri sem gervigreind mun skapa, pillu sem læknar krabbamein, bílar sem ganga fyrir plasti. Þó gæti orðið svo að verðbólga myndi sliga Ísland næstu árin sem yrði áskorun og greinilegt að núverandi efnahagsástand setti mark sitt á umræðuna.
Öll fengu rödd og tóku þátt í samsköpun hugmynda
Frá hverju grunnskóla í Reykjavík komu allt að tíu nemendur auk tveggja til fjögurra starfsmanna til að styðja við störf þeirra í vinnusmiðjunum. Hver smiðja stóð yfir í tvo daga í fimm tíma í senn. Smiðjurnar byggja á aðferðarfræði samfélagslegrar nýsköpunar þar sem allir þátttakendur fá rödd og tækifæri til að taka þátt í samtali og samsköpun hugmynda. Dagskrá beggja daganna skiptist í stutt innlegg, verkefni þar sem kafað er dýpra í viðfangsefnið, leiki og æfingar þar sem þátttakendur æfa sig í að hugsa á skapandi og lausnamiðaðan hátt og setja sig í spor annarra.
Hugmyndirnar sem urðu til í vinnusmiðjunum fara til baka með unglingunum þar sem þær verða kynntar í þeirra skólum og félagsmiðstöðvum þar sem verður leitað leiða við að koma sem flestum þeirra í framkvæmd.